Þeir koma af hafi og leggja utan við Agðanes. Þá spyr Kolbeinn Hrapp: "Hvar
er fé það er þú bauðst í leigu undir þig?"

"Það er út á Íslandi," segir Hrappur.

Kolbeinn mælti: "Vera munt þú fleirum prettóttur en mér en þó vil eg þér nú
upp gefa alla leiguna."

Hrappur bað hann hafa þökk fyrir "eða hvað leggur þú nú til ráðs með mér?"

"Það fyrst," segir Kolbeinn, "að þú far sem bráðast frá skipi því að allir
Austmenn munu illa túlka fyrir þér en þó ræð eg þér það annað heilræði að þú
svík aldrei lánardrottinn þinn."

Síðan gekk Hrappur á land upp með vopnum sínum og hafði öxi eina mikla í
hendi, vafinskeftu. Hann fer þar til er hann kemur til Guðbrands í Dala.
Hann var hinn mesti vin Hákonar jarls. Þeir áttu hof báðir saman og var því
aldrei upp lokið nema þá er jarl kom þangað. Það var annað mest hof í Noregi
en annað á Hlöðum. Þrándur hét sonur Guðbrands en Guðrún dóttir. Hrappur
gekk fyrir Guðbrand og kvaddi hann vel. Guðbrandur spyr hvað manna hann
væri. Hrappur sagði til nafns síns og það með að hann væri utan af Íslandi.
Síðan biður hann Guðbrand að hann taki við honum.

Guðbrandur mælti: "Ekki líst mér svo á þig sem þú munir gæfumaður vera."

"Mjög þykir mér og logið frá þér," segir Hrappur, "er það var sagt að þú
tækir við öllum þeim er þig bæðu og engi maður væri jafnágætur sem þú. Mun
eg því í móti mæla ef þú tekur eigi við mér."

Guðbrandur mælti: "Hér munt þú vera hljóta."

"Hvar vísar þú mér til sess?" segir Hrappur.

"Á hinn óæðra bekk," segir Guðbrandur, "gegnt öndvegi mínu."

Hrappur fór í sæti sitt. Hann kunni frá mörgu að segja. Var það fyrst að
Guðbrandi þótti gaman að og mörgum öðrum en þó kom svo að mörgum þótti
ofkerski.