79. kafli

Skarphéðinn mælti: "Nú skulum við fara þegar í nótt því að ef þeir spyrja að
eg er hér þá munu þeir vera varari um sig."

"Þínum ráðum vil eg fram fara," segir Högni.

Eftir það tóku þeir vopn sín þá er allir menn voru í rekkjum. Högni tekur
ofan atgeirinn og söng í honum hátt.

Rannveig spratt upp af æði mikilli og mælti: "Hver tekur atgeirinn þar er eg
bannaði öllum með að fara?"

"Eg ætla," segir Högni, "að færa föður mínum og hafi hann til Valhallar og
beri þar fram á vopnaþingi."

"Fyrri munt þú nú bera hann," segir hún, "og hefna föður þíns því að
atgeirinn segir manns bana, eins eða fleiri."

Síðan gekk Högni út og sagði Skarphéðni orðræðu þeirra ömmu hans.

Síðan fara þeir til Odda. Hrafnar tveir flugu með þeim alla leið. Þeir komu
um nóttina í Odda. Þeir ráku fénað heim á húsin. Þá hljóp út Hróaldur og
Tjörvi og ráku féið upp í geilarnar og höfðu með sér vopn sín.

Skarphéðinn spratt upp og mælti: "Eigi þarft þú að hyggja að, jafnt er sem
þér sýnist, menn eru hér."

Síðan höggur Skarphéðinn Tjörva banahögg. Hróaldur hafði spjót í hendi.
Högni hleypur að honum. Hróaldur leggur til Högna. Högni hjó í sundur
spjótskaftið með atgeirinum en rekur atgeirinn í gegnum hann. Síðan gengu
þeir frá þeim dauðum og snúa þaðan upp undir Þríhyrning. Skarphéðinn hleypur
á hús upp og reytir gras og ætluðu þeir er inni voru að fénaður væri. Tóku
þeir feðgar, Starkaður og Þorgeir, vopn sín og klæði og fóru út og hljópu
upp um garðinn. En er Starkaður sér Skarphéðinn hræðist hann og vildi aftur
snúa. Skarphéðinn höggur hann við garðinum. Þá kemur Högni í mót Þorgeiri og
vegur hann með atgeirinum.

Þaðan fara þeir til Hofs og var Mörður á velli úti og bað sér griða og bauð
alsætti.

Skarphéðinn sagði Merði víg þeirra fjögurra. "Og slíka för," segir
Skarphéðinn, "skalt þú fara eða selja Högna sjálfdæmi ef hann vill taka."

Högni kvaðst hitt hafa ætlað að sættast ekki við föðurbana sína en þó tók
hann sjálfdæmi um síðir.