Síðan tók Skarphéðinn öxi sína og fer með þeim til Hlíðarenda. Þau Högni og
Rannveig tóku við honum allvel og urðu honum fegin mjög. Rannveig bað að
hann væri þar lengi. Hann hét því. Þeir Högni gengu út og inn jafnan. Högni
var maður vasklegur og vel að sér ger og tortryggur og þorðu þau fyrir því
eigi að segja honum fyrirburðinn.

Þeir Skarphéðinn og Högni voru úti eitt kveld og voru fyrir sunnan haug
Gunnars. Tunglskin var bjart en stundum dró fyrir. Þeim sýndist haugurinn
opinn og hafði Gunnar snúist í hauginum og sá í móti tunglinu. Þeir þóttust
sjá fjögur ljós í hauginum brenna og bar hvergi skugga á. Þeir sáu að Gunnar
var kátlegur og með gleðibragði miklu. Hann kvað vísu og svo hátt að þó
mátti heyra gjörla þó það þeir væru firr:

Mælti döggla deilir,

dáðum rakkr, sá er háði

bjartr með bestu hjarta

benrögn, faðir Högna:

Heldr kvaðst hjálmi faldinn

hjörþilju sjá vilja

vættidraugr en vægja,

val-Freyju stafr, deyja -

og val-Freyju stafr deyja.

Síðan laukst aftur haugurinn.

"Mundir þú trúa," segir Skarphéðinn, "ef aðrir segðu þér?"

"Trúa mundi eg," segir Högni, "ef Njáll segði því að það er sagt að hann
ljúgi aldrei."

"Mikið er um fyrirburði slíka," segir Skarphéðinn, "er hann sjálfur vitraði
okkur að hann vildi heldur deyja en vægja fyrir óvinum sínum og kenndi okkur
þau ráð."

"Engu mun eg til leiðar koma," segir Högni, "nema þú viljir mér að veita."

"Nú skal eg það muna," segir Skarphéðinn, "hversu Gunnari fór eftir víg
Sigmundar frænda yðvars. Skal eg nú veita þér slíkt er eg má. Hét faðir minn
því Gunnari þar er þú ættir hlut að eða móðir hans."

Gengu þeir síðan heim til Hlíðarenda.