Þá mælti Þorgeir Starkaðarson: "Eigi megum vér vera heima í búum vorum fyrir
Sigfússonum nema þú Gissur hvíti eða Geir goði sért suður hér nokkura hríð."

"Þetta mun svo vera," segir Gissur og hlutuðu þeir og hlaut Geir eftir að
vera.

Síðan fór hann í Odda og settist þar. Hann átti sér son er Hróaldur hét.
Hann var laungetinn og hét Bjartey móðir hans og var systir Þorvalds hins
veila er veginn var við Hestlæk í Grímsnesi. Hann hrósaði því að hann hefði
veitt Gunnari banasár. Hróaldur var í Odda með föður sínum. Þorgeir
Starkaðarson hrósaði öðru sári að hann hefði Gunnari veitt. Gissur sat heima
að Mosfelli.

Víg Gunnars spurðist og mæltist illa fyrir um allar sveitir og var hann
mörgum mönnum mjög harmdauði.

78. kafli

Njáll kunni illa láti Gunnars og svo Sigfússynir. Þeir spurðu hvort Njáli
þætti nokkuð eiga að lýsa vígsök Gunnars og búa mál til. Hann kvað það ekki
mega er maður var sekur orðinn og kvað heldur mundu verða að veita þeim í
því vegskarð að vega nokkura í hefnd eftir hann.

Þeir urpu haug eftir Gunnar og létu hann sitja upp í hauginum. Rannveig
vildi eigi að atgeirinn færi í hauginn og kvað þann einn skyldu á honum taka
er hefna vildi Gunnars. Tók því engi á atgeirinum. Hún var svo hörð við
Hallgerði að henni hélt við að hún mundi drepa hana og kvað hana valdið hafa
vígi sonar síns. Stökk þá Hallgerður til Grjótár og Grani sonur hennar. Var
þá gert féskipti með þeim. Skyldi Högni taka land að Hlíðarenda og bú á en
Grani skyldi hafa leigulönd.

Sá atburður varð að Hlíðarenda að smalamaður og griðkona ráku fé hjá haugi
Gunnars. Þeim þótti Gunnar vera kátur og kveða í hauginum. Fóru þau heim og
sögðu Rannveigu móður Gunnars atburðinn en hún bað þau fara til
Bergþórshvols og segja Njáli. Þau gerðu svo en hann lét segja sér þrem
sinnum. Eftir það talaði hann lengi hljótt við Skarphéðinn.