En er þeir komu að bænum vissu þeir eigi hvort Gunnar mundi heima vera.
Gissur mælti að nokkur skyldi fara heim á húsin og vita hvað af kannaði en
þeir settust niður á völlinn meðan. Þorgrímur austmaður gekk upp á skálann.
Gunnar sér að rauðan kyrtil ber við glugginum og leggur út með atgeirinum á
hann miðjan. Þorgrími skruppu fæturnir og varð laus skjöldurinn og hrataði
hann ofan af þekjunni. Gengur hann síðan að þeim Gissuri þar er þeir sátu á
vellinum.
Gissur leit við honum og mælti: "Hvort er Gunnar heima?"
"Vitið þér það en hitt vissi eg að atgeir hans var heima." segir
Austmaðurinn.
Féll hann þá niður dauður. Þeir sóttu þá heim að húsunum. Gunnar skaut út
örum að þeim og varðist vel og gátu þeir ekki að gert. Þá hljópu sumir á
húsin upp og ætluðu þaðan að að sækja. Gunnar kom þangað að þeim örunum og
gátu þeir ekki að gert og fór svo fram um hríð. Þeir tóku hvíld og sóttu að
í annað sinn. Gunnar skaut enn út örunum og gátu þeir enn ekki að gert og
hrukku frá í annað sinn.
Þá mælti Gissur hvíti: "Sækjum að betur, ekki verður af oss."
Gerðu þeir þá hríð hina þriðju og voru við lengi. Eftir það hrukku þeir frá.
Gunnar mælti: "Ör liggur þar úti á þekjunni og er sú af þeirra örum og skal
eg þeirri skjóta til þeirra. Og er þeim það skömm ef þeir fá geig af vopnum
sínum."
Móðir hans mælti: "Ger þú eigi það son minn að þú vekir þá er þeir hafa áður
frá horfið."
Gunnar þreif örina og skaut til þeirra og kom á Eilíf Önundarson og fékk
hann af sár mikið. Hann hafði staðið einn saman og vissu þeir eigi að hann
var særður.
"Hönd kom þar út," segir Gissur, "og var á gullhringur og tók ör er lá á
þekjunni og mundi eigi út leitað viðfanga ef gnógt væri inni og skulum vér
nú sækja að."