Það er sagt að Gunnar reið til allra mannfunda og lögþinga og þorðu aldrei
óvinir hans á hann að ráða. Fór svo fram nokkura hríð að hann fór sem ósekur
maður.
76. kafli
Um haustið sendi Mörður Valgarðsson orð að Gunnar mundi vera einn heima en
lið allt mundi vera niðri í Eyjum að lúka heyverkum. Riðu þeir Gissur hvíti
og Geir goði austur yfir ár þegar þeir spurðu það og austur yfir sanda til
Hofs. Þá sendu þeir orð Starkaði undir Þríhyrningi. Og fundust þeir þar
allir er að Gunnari skyldu fara og réðu hversu þeir skyldu með fara.
Mörður sagði að þeir mundu eigi koma á óvart Gunnari nema þeir tækju bónda
af næsta bæ er Þorkell hét og létu hann fara nauðgan með sér að taka hundinn
Sám og færi hann einn heim á bæinn.
Fóru þeir síðan austur til Hlíðarenda en sendu menn að fara eftir Þorkatli.
Þeir tóku hann höndum og gerðu honum tvo kosti, að þeir mundu drepa hann
ella skyldi hann taka hundinn en hann kjöri heldur að leysa líf sitt og fór
með þeim. Traðir voru fyrir ofan garðinn að Hlíðarenda og námu þeir þar
staðar með flokkinn. Þorkell bóndi gekk heim á bæinn og lá rakkinn á húsum
uppi og teygir hann rakkann á braut í geilarnar með sér. Í því sér hundurinn
að þar eru menn fyrir og hleypur á hann Þorkel upp og grípur nárann og rífur
þar á hol. Önundur úr Tröllaskógi hjó með öxi í höfuð hundinum svo að allt
kom í heilann. Hundurinn kvað við hátt svo að það þótti þeim með ódæmum
miklum vera og féll hann dauður niður.
77. kafli
Gunnar vaknaði í skálanum og mælti: "Sárt ert þú leikinn Sámur fóstri og
búið svo sé til ætlað að skammt skuli okkar í meðal."
Skáli Gunnars var ger af viði einum og súðþaktur utan og gluggar hjá
brúnásunum og snúin þar fyrir speld. Gunnar svaf í lofti einu í skálanum og
Hallgerður og móðir hans.