Gunnar lætur flytja vöru þeirra bræðra til skips. Og þá er öll föng Gunnars
voru til skips komin og skip var mjög búið þá ríður Gunnar til Bergþórshvols
og á aðra bæi að finna menn og þakkaði liðveislu öllum þeim er honum höfðu
lið veitt.

Annan dag eftir býr hann snemmendis ferð sína til skips og sagði þá öllu
liði að hann mundi ríða í braut alfari og þótti mönnum það mikið en væntu þó
tilkomu hans síðar. Gunnar hverfur til allra heimamanna sinna er hann var
búinn og gengu menn út með honum allir. Hann stingur niður atgeirinum og
stiklar í söðulinn og ríða þeir Kolskeggur í braut. Þeir ríða fram að
Markarfljóti. Þá drap hestur Gunnars fæti og stökk hann af baki.

Honum varð litið upp til hlíðarinnar og bæjarins að Hlíðarenda. Þá mælti
hann: "Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir
akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi."

"Ger þú eigi þann óvinafagnað," segir Kolskeggur, "að þú rjúfir sætt þína
því að þér mundi engi maður það ætla. Og munt þú það ætla mega að svo mun
allt fara sem Njáll hefir sagt."

"Hvergi mun eg fara," segir Gunnar, "og svo vildi eg að þú gerðir."

"Eigi skal það," segir Kolskeggur, "hvorki skal eg á þessu níðast og á engu
öðru því er mér er til trúað og mun sjá einn hlutur svo vera að skilja mun
með okkur en seg það móður minni og frændum mínum að eg ætla ekki að sjá
Ísland því að eg mun spyrja þig látinn frændi og heldur mig þá ekki til
útferðar."

Skilur þá með þeim. Ríður Gunnar heim til Hlíðarenda en Kolskeggur ríður til
skips og fer utan.

Hallgerður var fegin Gunnari er hann kom heim en móðir hans lagði fátt til.
Gunnar situr nú heima þetta haust og veturinn og hafði ekki margt manna um
sig. Líður nú vetur úr garði.