Í annað sinn nefndi Gissur sér votta og lýsti sök á hönd Gunnari
Hámundarsyni um það er hann særði Þorgeir Otkelsson holundarsári því er að
ben gerðist en Þorgeir fékk bana af á þeim vettvangi er Gunnar hljóp til
Þorgeirs lögmætu frumhlaupi áður. Síðan lýsti hann þessi lýsing sem hinni
fyrri. Þá spurði hann að þingfesti og að heimilisfangi. Eftir það gengu menn
frá Lögbergi og mæltu allir að honum mæltist vel. Gunnar var vel stilltur og
lagði fátt til.

Líður nú þingið þar til er dómar fara út. Gunnar stóð norðan að
Rangæingadómi og hans menn en Gissur hinn hvíti stóð sunnan að og hans menn
og nefndi sér votta og bauð Gunnari að hlýða til eiðspjalls síns og til
framsögu sakar sinnar og til sóknargagna þeirra allra sem hann hugði fram að
færa. Eftir það vann hann eið. Þá sagði hann fram sök sína svo skapaða í dóm
sem hann lýsti. Þá lét hann bera lýsingarvætti. Þá bauð hann búum í setu og
til ruðningar um kviðinn.


74. kafli

Þá mælti Njáll: "Nú mun eigi sitjanda hlut mega í eiga. Göngum nú þar til er
búarnir sitja."

Þeir gengu þangað til og ruddu fjóra búa úr kviðinum en kvöddu hina fimm
bjargkviðar, er eftir voru, um málið Gunnars, hvort þeir Þorgeir
Starkaðarson eða Þorgeir Otkelsson hefðu farið með þann hug til fundar að
vinna á Gunnari ef þeir mættu. En allir báru það skjótt að það hefði verið.
Kallaði Njáll þetta lögvörn fyrir málið og kvaðst mundu fram bera vörnina
nema þeir legðu til sætta. Voru í þessu þá margir höfðingjar að biðja
sættanna og fékkst það af að tólf menn skyldu gera um málið. Ganga
hvorirtveggju þá til og handsala þessa sætt.

Eftir það var gert um málið og ákveðið um fégjöld og skyldi allt greitt
þegar þar á þingi en Gunnar skyldi fara utan og Kolskeggur og vera í brautu
þrjá vetur. En ef Gunnar færi eigi utan og mætti hann komast þá skyldi hann
dræpur fyrir frændum hins vegna.