"Lengi hafa þeir ótrúlegir verið," segir Kolskeggur, "eða hvað skal nú til
ráða taka?"
"Hleypa skulum við upp hjá þeim," segir Gunnar, "til vaðsins og búast þar
við."
Hinir sjá það og snúa þegar að þeim. Gunnar bendir upp bogann og tekur
örvarnar og steypir niður fyrir sig og skýtur þegar er þeir komu í skotfæri.
Særði Gunnar við það mjög marga menn en drap suma.
Þá mælti Þorgeir Otkelsson: "Þetta dugir oss ekki, göngum að sem harðast."
Þeir gerðu svo. Fyrstur gekk Önundur hinn fagri, frændi Þorgeirs. Gunnar
skaut atgeirinum til hans og kom á skjöldinn og klofnaði hann í tvo hluti en
atgeirinn hljóp í gegnum Önund. Ögmundur flóki hljóp að baki Gunnari.
Kolskeggur sá það og hjó undan Ögmundi báða fætur og hratt honum út á Rangá
og drukknaði hann þegar. Gerðist nú bardagi mikill og harður og hjó Gunnar
annarri hendi en lagði annarri. Kolskeggur vó og drjúgan menn en særði
marga.
Þorgeir Starkaðarson mælti til nafna síns: "Alllítt sér það á að þú eigir
föður þíns að hefna á Gunnari."
Þorgeir Otkelsson svarar: "Víst er eigi vel fram gengið en þó hefir þú eigi
gengið mér í spor enda skal eg eigi þola þín frýjuorð," hleypur að Gunnari
af mikilli reiði og lagði spjóti í gegnum skjöldinn og svo í gegnum hönd
Gunnari. Gunnar snaraði svo hart skjöldinn að spjótið brotnaði í falnum.
Gunnar sér annan mann kominn í höggfæri við sig og höggur þann banahöggi.
Eftir það þrífur hann atgeirinn tveim höndum. Þá var Þorgeir Otkelsson
kominn nær honum með brugðnu sverði og reiddi hart. Gunnar snýst að honum
skjótt af mikilli reiði og rekur í gegnum hann atgeirinn og bregður honum á
loft og keyrir hann út á Rangá. Og rekur hann ofan á vaðið og festi þar á
steini einum og heitir þar síðan Þorgeirsvað.