"Það munu margir mæla," kvað Mörður, "að eigi hafi um sakleysi verið þar sem
Gunnar rauf sætt við þá nafna."
"Eigi er það sættarrof," segir Njáll, "að hver hafi lög við annan því að með
lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða."
Sagði Njáll mönnum þá að Gunnar hafði boðið land fyrir Móeiðarhvol eða annað
fé. Þóttust þeir þá nafnar falsaðir af Merði og töldu á hann mjög og kváðust
af honum hljóta þetta fégjald. Njáll nefndi tólf manna dóm á þessu máli.
Galt þá hundrað silfurs hver er til hafði farið en tvö hundruð hvor þeirra
nafna. Tók Njáll við þessu fé og varðveitti en hvorir veittu öðrum tryggðir
og grið og mælti Njáll fyrir.
Reið Gunnar þá af þingi vestur til Dala í Hjarðarholt. Tók Ólafur pái vel
við honum. Sat hann þar hálfan mánuð. Gunnar reið víða um Dala og tóku allir
við honum fegins hendi.
En að skilnaði mælti Ólafur til Gunnars: "Eg vil gefa þér þrjá gripi,
gullhring og skikkju er átt hefir Mýrkjartan Írakonungur og hund er mér var
gefinn á Írlandi. Hann er mikill og eigi verri til fylgdar en röskur maður.
Það fylgir og að hann hefir mannsvit. Hann mun og geyja að hverjum manni
þeim er hann veit að óvinur þinn er en aldrei að vinum þínum því að hann sér
á hverjum manni hvort til þín er vel eða illa. Hann mun og líf á leggja að
vera þér trúr. Þessi hundur heitir Sámur."
Síðan mælti hann við hundinn: "Nú skalt þú Gunnari fylgja og vera honum
slíkur sem þú mátt."
Hundurinn gekk þegar að Gunnari og lagðist niður fyrir fætur honum.
Ólafur bað Gunnar vera varan um sig og kvað hann marga eiga öfundarmenn "þar
er þú þykir nú ágætastur maður um allt land."
Gunnar þakkaði honum gjafar og heilræði og ríður heim síðan. Situr Gunnar nú
heima nokkura hríð og er kyrrt.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa