Nú er að segja frá Njáli að hann ríður til fundar við þá nafna.
"Óvarlega liggið þér," segir hann, "eða til hvers skal för sjá ger hafa
verið? Og er Gunnar engi klekktunarmaður. En ef satt skal um tala þá eru
þetta hin mestu fjörráð. Skuluð þér það og vita að Gunnar er í liðsafnaði og
mun hann hér brátt koma og drepa yður nema þér ríðið undan og heim."
Þeir brugðust við skjótt og varð þeim mjög um felmt og tóku vopn sín og
stigu á hesta sína og hleyptu heim undir Þríhyrning.
Njáll fór til móts við Gunnar og bað hann ekki eyða fjölmenni "en eg mun
fara í meðal og leita um sættir. Munu þeir nú vera hóflega hræddir. En fyrir
þessi fjörráð skal eigi koma minna, er við alla þá er um að eiga, en eigi
skal meira koma fyrir víg annars hvors þeirra nafna þó að það kunni við að
bera. Skal eg varðveita þetta fé og svo fyrir sjá að þá sé þér innan handar
er þú þarft til að taka."
70. kafli
Gunnar þakkaði Njáli tillögur sínar. Njáll reið undir Þríhyrning og sagði
þeim nöfnum að Gunnar mundi ekki eyða flokkinum fyrr en úr sliti með þeim.
Þeir buðu boð fyrir sig og voru óttafullir og báðu Njál fara með
sáttarboðum. Njáll kvaðst með því einu fara mundu er eigi fylgdu svik. Þeir
báðu hann vera í gerðinni og kváðust það halda mundu er hann gerði. Njáll
kvaðst eigi gera mundu nema á þingi og væru við hinir bestu menn. Þeir játtu
því. Gekk þá Njáll í meðal svo að hvorir handsöluðu öðrum grið og sætt.
Skyldi Njáll gera um og nefna þá til er hann vildi.
Litlu síðar fundi þeir nafnar Mörð Valgarðsson. Mörður taldi á þá mjög er
þeir höfðu lagið mál undir Njál þar sem hann var vinur Gunnars mikill, kvað
þeim það illa duga mundu.
Ríða menn nú til alþingis að vanda. Eru nú hvorirtveggju á þingi. Njáll
kvaddi sér hljóðs og spyr alla höfðingja og hina bestu menn er þar voru
komnir hvert mál þeim þætti Gunnar eiga á þeim nöfnum fyrir fjörráðin. Þeir
svöruðu að þeim þótti slíkur maður mikinn rétt á sér eiga. Njáll spurði
hvort hann ætti á öllum þeim eða ættu fyrirmenn einir að svara málinu. Þeir
sögðu mest á fyrirmönnum en þó á öllum mikið.