69. kafli

Þá er þeir húskarlar og Kolskeggur höfðu verið þrjár nætur í Eyjum þá hefir
Þorgeir Starkaðarson njósn af þessu og gerir orð nafna sínum að hann skyldi
koma til móts við hann á Þríhyrningshálsa. Síðan bjóst Þorgeir undan
Þríhyrningi við hinn tólfta mann. Hann ríður upp á hálsinn og bíður þar
nafna síns. Gunnar er nú einn heima á bænum. Ríða þeir nafnar í skóga
nokkura. Þar kom að þeim svefnhöfgi og máttu þeir ekki annað en sofa. Festu
þeir skjöldu sína í limar en bundu hesta sína og settu hjá sér vopnin.

Njáll var þessa nótt í Þórólfsfelli og mátti ekki sofa og gekk ýmist út eða
inn. Þórhildur spurði Njál hví hann mætti ekki sofa.

"Margt ber nú fyrir augu mér," sagði hann. "Eg sé margar fylgjur grimmlegar
óvina Gunnars og er nokkuð undarlega. Þær láta ólmlega og fara þó
ráðlauslega."

Litlu síðar reið maður að dyrum og steig af baki og gekk inn og var þar
sauðamaður þeirra Þórhildar.

Hún mælti: "Hvort fannst þú sauðina?"

"Fann eg það er meira mundi varða," segir hann.

"Hvað var það?" segir Njáll.

"Eg fann fjóra og tuttugu menn," segir hann, "í skóginum uppi. Þeir höfðu
bundið hesta sína en sváfu sjálfir. Þeir höfðu fest skjöldu sína í limar."

En svo hafði hann gjörla að hugað að hann sagði frá allra þeirra vopnabúnaði
og klæðum.

Njáll vissi þá gjörla hver hvergi hafði verið og mælti til hans: "Gott hjóna
ert þú, ef slík væru mörg, og skalt þú jafnan þessa njóta en þó vil eg nú
senda þig."

Hann játti að fara.

"Þú skalt fara," segir Njáll, "til Hlíðarenda og segja Gunnari að hann fari
til Grjótár og sendi þaðan eftir mönnum en eg mun fara til móts við þá er í
skóginum eru og fæla þá í braut. Hefir þetta af því vel í móti borist að
þeir munu engis afla í þessi en láta mikið."

Sauðamaður fór og sagði Gunnari sem gerst frá öllu. Reið þá Gunnar til
Grjótár og stefndi að sér mönnum.