Þeir hljópu eftir einfætingi og sáu hann stundum og þótti sem hann leitaði
undan. Hljóp hann út á vog einn. Þá hurfu þeir aftur. Þá kvað einn maður
kviðling þenna:
Eltu seggir,
allsatt var það,
einn einfæting
ofan til strandar
en kynlegr maðr
kostaði rásar
hart of stopir,
heyrðu, Karlsefni.
Þeir fóru þá í brott og norður aftur og þóttust sjá Einfætingaland. Vildu
þeir þá eigi lengur hætta liði sínu. Þeir ætluðu öll ein fjöll, þau er í
Hópi voru og þessi er nú fundu þeir, og það stæðist mjög svo á og væri
jafnlangt úr Straumsfirði beggja vegna.
Fóru þeir aftur og voru í Straumsfirði hinn þriðja vetur. Gengu menn þá mjög
sleitum. Sóttu þeir er kvonlausir voru í hendur þeim er kvongaðir voru. Þar
kom til hið fyrsta haust Snorri son Karlsefnis og var hann þá þrívetur er
þeir fóru á brott.
Höfðu þeir sunnanveður og hittu Markland og fundu Skrælingja fimm. Var einn
skeggjaður og tvær konur, börn tvö. Tóku þeir Karlsefni til sveinanna en
hitt komst undan og sukku í jörð niður. En sveinana höfðu þeir með sér og
kenndu þeim mál og voru skírðir. Þeir nefndu móður sína Vethildi og föður
Óvægi. Þeir sögðu að konungar stjórnuðu Skrælingjalandi. Hét annar þeirra
Avaldamon en annar hét Valdidida. Þeir kváðu þar engi hús og lágu menn í
hellum eða holum. Þeir sögðu land þar öðrumegin gagnvart sínu landi og gengu
menn þar í hvítum klæðum og æptu hátt og báru stangir og fóru með flíkur.
Það ætla menn Hvítramannaland. Nú komu þeir til Grænlands og eru með Eiríki
rauða um veturinn.