Apologies for being late here there was a minor glitch in
communications last night UK Time
Patricia
Eiríkur tók því máli seint að láta sið sinn en Þjóðhildur gekk skjótt
undir og lét gera kirkju eigi allnær húsunum. Var það hús kallað
Þjóðhildarkirkja. hafði hún þar fram bænir sínar og þeir menn sem við
kristni tóku en þeir voru margir. Þjóðhildur vildi ekki halda
samfarar við Eirík síðan er hún tók trú en honum var það mjög í móti
skapi.
Af þessu gerðist orð mikið að menn mundu leita lands þess er Leifur
hafði fundið. Var þar formaður Þorsteinn Eiríksson, góður maður og
fróður og vinsæll. Eiríkur var og til beðinn og trúðu menn því að
hans gæfa mundi framast vera og forsjá. Hann var þá fyrir en kvað
eigi nei við er vinir hans fýstu hann til. Bjuggu þeir skip það síðan
er Þorbjörn hafði út haft og voru til ráðnir tuttugu menn. Höfðu þeir
fé lítið en meir vopn og vistir.
Þann morgun er Eiríkur fór heiman tók hann kistil og var þar í gull
og silfur. Fal hann það fé og fór síðan leiðar sinnar. Og er hann var
skammt á leið kominn féll hann af baki og braut rif sín og lesti öxl
sína og kvað við: "Ái, ái."
Af þessum atburð sendi hann konu sinni orð, að hún tæki féið á brott
það er hann hafði fólgið, lét þess hafa að goldið er hann hafði féið
fólgið.
Síðan sigldu þeir út úr Eiríksfirði með gleði og þótti vænt um sitt
ráð. Þá velkti lengi úti í hafi og komu ekki á þær slóðir sem þeir
vildu. Þeir komu í sýn við Ísland og svo höfðu þeir fugl af Írlandi.
Reiddi þá skip þeirra um haf innan, fóru aftur um haustið og voru
mæddir og mjög þrekaðir og komu við vetur sjálfan á Eiríksfjörð.
Þá mælti Eiríkur: "Kátari voruð þér í sumar er þér fóruð út úr
firðinum en nú erum vér og eru nú þó mörg góð að."
Þorsteinn mælti: "Það er nú höfðinglegt bragð að sjá nokkuð ráð fyrir
þeim mönnum sem nú eru ráðlausir og fá þeim vistir."
Eiríkur svarar: "Skal þín orð um þetta fara."
Fóru nú allir þeir er eigi höfðu áður vistir með þeim feðgum. Síðan
tóku þeir land og fóru heim.
6. kafli
Nú er frá því að segja að Þorsteinn Eiríksson vakti bónorð við
Guðríði Þorbjarnardóttur. Var því máli vel svarað bæði af henni og
svo af föður hennar og er þetta að ráðum gert að Þorsteinn gekk að
eiga Guðríði og var brúðkaupið í Brattahlíð um haustið. Fór sú veisla
vel fram og var mjög fjölmenn.
Þorsteinn átti bú í Vestribyggð á bæ þeim er í Lýsufirði heitir. Sá
maður átti þar helming í búi er Þorsteinn hét. Sigríður hét kona
hans. Fóru þau Þorsteinn heim í Lýsufjörð og Guðríður bæði. Var þar
vel við þeim tekið. Voru þau þar um veturinn.
Það gerðist þar til tíðinda að sótt kom í bæ þeirra er lítið var af
vetri. Garði hét þar verkstjóri. Hann var óvinsæll maður. Hann tók
fyrst sótt og andaðist. Síðan var skammt að bíða að hver tók sótt að
öðrum og önduðust.
Þá tók sótt Þorsteinn Eiríksson og Sigríður kona Þorsteins. Og eitt
kveld fýsist hún að ganga til garðs þess er stóð í gegnt útidyrum.