I have posted here an extra copy - I think two hours - is quite long
enough for Yahoo to hold on to the assignment, before sending
Patricia

En eg kann það að segja að hallæri þetta mun ekki haldast lengur en í
vetur og mun batna árangur sem vorar. Sóttarfar það sem lengi hefir
legið mun og batna vonum bráðara. En þér Guðríður skal eg launa í
hönd liðsinni það sem oss hefir af staðið því að þín forlög eru mér
nú öll glöggsæ. Það muntu gjaforð fá hér á Grænlandi er sæmilegast er
til þó að þér verði það eigi til langæðar því að vegir þínir liggja
út til Íslands og mun þar koma frá þér ættbogi bæði mikill og góður
og yfir þínum ættkvíslum mun skína bjartur geisli. Enda far nú vel og
heil, dóttir mín."
Síðan gengu menn að vísindakonunni og frétti hver eftir því sem mest
forvitni var á. Var hún og góð af frásögnum. Gekk það og lítt í tauma
er hún sagði. Þessu næst var komið eftir henni af öðrum bæ og fór hún
þá þangað. Þá var sent eftir Þorbirni því að hann vildi eigi heima
vera meðan slík heiðni var framin.

Veðrátta batnaði skjótt þegar er vora tók sem Þorbjörg hafði sagt.
Býr Þorbjörn skip sitt og fer uns hann kemur í Brattahlíð. Tekur
Eiríkur við honum báðum höndum og kvað það vel er hann var þar
kominn. Var Þorbjörn með honum um veturinn og skuldalið hans. Eftir
um vorið gaf Eiríkur Þorbirni land á Stokkanesi og var þar ger
sæmilegur bær og bjó hann þar síðan.


5. kafli

Eiríkur átti þá konu er Þjóðhildur hét og við henni tvo sonu. Hét
annar Þorsteinn en annar Leifur. Þeir voru báðir efnilegir menn. Var
Þorsteinn heima með föður sínum og var eigi þá sá maður á Grænlandi
er jafn mannvænn þótti sem hann. Leifur hafði siglt til Noregs. Var
hann þar með Ólafi konungi Tryggvasyni.

En er Leifur sigldi af Grænlandi um sumarið urðu þeir sæhafa til
Suðureyja. Þaðan byrjaði þeim seint og dvöldust þar lengi um sumarið.

Leifur lagði hug á konu þá er Þórgunna hét. Hún var kona ættstór. Það
sá Leifur að hún mundi kunna fleira en fátt eitt.

En er Leifur sigldi á brott beiddist Þórgunna að fara með honum.
Leifur spurði hvort það væri nokkuð vilji frænda hennar. Hún kveðst
ekki að því fara.

Leifur kveðst eigi kunna að gera hertekna svo stórættaða konu í
ókunnu landi "en vér liðfáir."

Þórgunna mælti: "Eigi er víst að þér þyki því betur ráðið."

"Á það mun eg hætta," sagði Leifur.