En nokkurum nóttum síðar riðu þeir Njálssynir og Gunnar þangað til sem líkin
voru og grófu þá upp alla sem jarðaðir voru. Stefndi Gunnar þeim þá öllum
til óhelgi fyrir aðför og fjörráð og reið heim eftir það.
65. kafli
Þetta haust hið sama kom út Valgarður hinn grái og fór heim til Hofs.
Þorgeir fór að finna þá Valgarð og Mörð og sagði hver firn voru er Gunnar
skyldi hafa óhelgað þá alla er hann hafði vegið. Valgarður kvað það vera
mundu ráð Njáls og þó eigi öll upp komin þau sem hann mundi ráða honum.
Þorgeir bað þá feðga liðveislu og atgöngu en þeir fóru lengi undan og mæltu
til fé mikið að lyktum. Var það í ráðagerðum að Mörður skyldi biðja Þorkötlu
dóttur Gissurar hvíta og skyldi Þorgeir þegar ríða vestur um ár með þeim
Valgarði og Merði.
Annan dag eftir riðu þeir tólf saman og komu til Mosfells og var þeim þar
vel fagnað, voru þar um nóttina. Vekja þeir þá til við Gissur um bónorðið.
Lýkur svo með þeim að ráðin skyldu takast og skyldi boð vera á hálfs mánaðar
fresti að Mosfelli. Ríða þeir heim. Síðan fjölmenna þeir feðgar mjög til
boðsins. Var þar og margt fyrirboðsmanna og fór það vel fram. Fór Þorkatla
heim með Merði og var fyrir búi en Valgarður fór utan um sumarið.
Mörður eggjar Þorgeir á um málatilbúnað við Gunnar. Þorgeir fór að finna
Önund í Tröllaskógi, biður hann nú búa til vígsmálið Egils bróður síns og
sona hans "en eg mun búa til vígsmál bræðra minna og áverkamál mitt og föður
míns."
Önundur kvaðst þess albúinn. Fara þeir þá og lýsa vígunum og kveðja níu
vettvangsbúa.
Þessi málatilbúnaður spurðist til Hlíðarenda. Ríður Gunnar þá að finna Njál
og segir honum og spurði hvað hann vildi þá láta að gera.