Kolur mælti Egilsson: "Látið mig fram að Kolskeggi. Eg hefi það jafnan mælt
að við mundum mjög jafnfærir til vígs."

"Slíkt megum við nú reyna," segir Kolskeggur.

Kolur leggur til hans spjóti. Kolskeggur vó þá mann og átti sem mest að
vinna og kom hann eigi fyrir sig skildinum og kom lagið í lærið utanfótar og
gekk í gegnum.

Kolskeggur brást við fast og óð að honum og hjó með saxinu á lærið og undan
fótinn og mælti: "Hvort nam eg þig eða eigi?"

"Þess galt eg nú," segir Kolur, "er eg var berskjaldaður" og stóð nokkura
stund á hinn fótinn og leit á stúfinn.

Kolskeggur mælti: "Eigi þarft þú að líta á, jafnt er sem þér sýnist, af er
fóturinn."

Kolur féll þá dauður niður. En er þetta sér Egill faðir hans hleypur hann að
Gunnari og höggur til hans. Gunnar leggur í móti atgeirinum og kom á Egil
miðjan. Gunnar vegur hann upp á atgeirinum og kastar honum út á Rangá.

Þá mælti Starkaður: "Alls vesall ert þú Þórir austmaður er þú situr hjá en
nú er veginn Egill húsbóndi þinn og mágur."

Þá spratt upp Austmaðurinn og var reiður mjög. Hjörtur hafði orðið tveggja
manna bani. Austmaðurinn hleypur að honum og höggur framan á brjóstið og þar
á hol. Hjörtur féll þá þegar dauður niður. Gunnar sér þetta og varpar sér
skjótt til höggs við Austmanninn og sníður hann í sundur í miðju. Litlu
síðar skýtur Gunnar til Barkar atgeirinum og kom á hann miðjan og í gegnum
hann og niður í völlinn. Þá höggur Kolskeggur höfuð af Hauki Egilssyni en
Gunnar höggur hönd af Óttari í olbogabót.

Þá mælti Starkaður: "Flýjum nú, ekki er við menn um að eiga."

Gunnar mælti: "Það mun ykkur feðgum þykja illt til frásagnar ef ekki skal
mega sjá á ykkur að þið hafið í bardaga verið."

Síðan hljóp Gunnar að þeim feðgum og veitti þeim áverka. Eftir það skildu
þeir og höfðu þeir Gunnar marga þá særða er undan héldu.