63. kafli

Nú eggjar Starkaður sína menn. Snúa þeir þá fram í nesið að þeim. Sigurður
svínhöfði fór fyrstur og hafði törguskjöld einbyrðan en sviðu í annarri
hendi. Gunnar sér hann og skýtur til hans af boganum. Hann brá upp við
skildinum er hann sá örina hátt fljúga og kom örin í gegnum skjöldinn og í
augað svo að út kom í hnakkann og varð það víg fyrst. Annarri ör skaut
Gunnar að Úlfhéðni ráðamanni Starkaðar og kom sú á hann miðjan og féll hann
fyrir fætur bónda einum en bóndinn féll um hann þveran. Kolskeggur kastar
til steini og kom í höfuð bóndanum og varð það hans bani.

Þá mælti Starkaður: "Ekki mun oss þetta duga að hann komi boganum við og
göngum að fram vel og snarplega."

Síðan eggjaði hver annan. Gunnar varði sig með boganum meðan hann mátti.
Síðan kastaði hann niður boganum. Tók hann þá atgeirinn og sverðið og vegur
með báðum höndum. Er bardaginn þá hinn harðasti. Gunnar vegur þá drjúgan
menn og svo Kolskeggur.

Þá mælti Þorgeir Starkaðarsonur: "Eg hét að færa Hildigunni höfuð þitt
Gunnar."

"Ekki mun henni það þykja neinu varða hvort þú efnir það eða eigi," segir
Gunnar, "en þó munt þú nær ganga hljóta ef þú skalt það meðal handa hafa."

Þorgeir mælti þá við bræður sína: "Hlaupum vér að honum fram allir senn.
Hann hefir engan skjöld og munum vér hafa ráð hans í hendi."

Þeir hljópu fram Börkur og Þorkell og urðu skjótari en Þorgeir. Börkur
höggur til Gunnars. Gunnar laust við atgeirinum svo hart að sverðið hraut úr
hendi Berki. Sér hann þá til annarrar handar Þorkel standa í höggfæri við
sig. Gunnar stóð nokkuð höllum fæti. Hann sveiflaði þá til sverðinu og kom á
hálsinn Þorkatli og fauk af höfuðið.