"Það hefir mig dreymt," segir Gunnar, "að eg mundi eigi riðið hafa úr Tungu
svo fámennur ef mig hefði þá þetta dreymt."
"Seg þú okkur draum þinn," segir Kolskeggur.
"Það dreymdi mig," segir Gunnar, "að eg þóttist ríða fram hjá Knafahólum.
Þar þóttist eg sjá varga mjög marga og sóttu þeir allir að mér en eg sneri
undan fram að Rangá. Þá þótti mér þeir sækja að öllum megin en eg varðist.
Eg skaut alla þá er fremstir voru þar til er þeir gengu svo að mér að eg
mátti eigi boganum við koma. Tók eg þá sverðið og vó eg með annarri hendi en
lagði með atgeirinum annarri hendi. Hlífði eg mér þá ekki og þóttist eg þá
eigi vita hvað mér hlífði. Drap eg þá marga vargana og þú með mér Kolskeggur
en Hjört þótti mér þeir hafa undir og slíta á honum brjóstið og hafði einn
hjartað í munni sér. En eg þóttist verða svo reiður að eg hjó varginn í
sundur fyrir aftan bóguna og eftir það þóttu mér stökkva vargarnir. Nú er
það ráð mitt Hjörtur frændi að þú ríðir vestur aftur í Tungu.
"Eigi vil eg það," segir Hjörtur. "Þótt eg viti vísan bana minn þá vil eg
þér fylgja."
Síðan riðu þeir og komu austur hjá Knafahólum.
Þá mælti Kolskeggur: "Sérðu frændi mörg spjót koma upp hjá hólunum og menn
með vopnum?"
"Ekki kemur mér það að óvörum," segir Gunnar, "að draumur minn sannist."
"Hvað skal nú til ráðs taka?" segir Kolskeggur. "Eg get að þú viljir eigi
renna undan þeim."
"Ekki skulu þeir að því eiga að spotta," segir Gunnar, "en ríða munum vér
fram að Rangá í nesið. Þar er vígi nokkuð."
Ríða þeir nú fram í nesið og bjuggust þar við.
Kolur mælti er þeir riðu hjá fram: "Hvort skal nú renna Gunnar?"
Kolskeggur mælti: "Seg þú svo fremi frá því er sjá dagur er allur."