Þorgeir mælti til Hildigunnar: "Þessi hönd skal þér sýna Gunnar dauðan í
kveld."

"En eg get," segir hún, "að þú berir lágt höfuðið af ykkrum fundi."

Þeir fara fjórir feðgar undan Þríhyrningi og ellefu menn aðrir. Fóru þeir
til Knafahóla og biðu þar.

Sigurður svínhöfði kom í Sandgil og mælti: "Eg er sendur hingað af Starkaði
og sonum hans að segja þér Egill að þér feðgar farið til Knafahóla að sitja
fyrir Gunnari."

"Hversu margir skyldum vér fara?" segir Egill.

"Fimmtán með mér," segir Sigurður.

Kolur mælti: "Nú ætla eg mér í dag að reyna við Kolskegg."

"Mjög þykir mér þú ætla þér," segir Sigurður.

Egill bað Austmenn sína fara.

Þeir kváðust engar sakar eiga við Gunnar "enda þarf hér mikils við," segir
Þórir, "er fjöldi manns skal fara að þremur mönnum."

Gekk þá Egill í braut og var reiður.

Húsfreyja mælti þá til Austmannsins: "Illa hefir Guðrún dóttir mín brotið
odd af oflæti sínu og legið hjá þér er þú skalt eigi þora að fylgja mági
þínum og munt þú vera ragur maður," segir hún.

"Fara mun eg," segir hann, "með bónda þínum og mun hvorgi okkar aftur koma."

Síðan gekk hann til Þorgríms félaga síns og mælti: "Tak þú við kistulyklum
mínum því að eg mun þeim eigi lúka oftar. Bið eg að þú eignist slíkt af fé
okkru sem þú vilt en far utan og ætla ekki til hefnda eftir mig. En ef þú
ferð eigi utan þá verður það þinn bani."

Austmaðurinn tekur vopn sín og ræðst í flokk með þeim.


62. kafli

Nú er þar til máls að taka að Gunnar ríður austur yfir Þjórsá. En er hann
kom skammt frá ánni syfjaði hann mjög og bað hann þá æja þar. Þeir gerðu
svo. Hann sofnaði fast og lét illa í svefni.

Kolskeggur mælti: "Dreymir Gunnar nú."

Hjörtur mælti: "Vekja vildi eg hann."

"Eigi skal það," segir Kolskeggur, "og skal hann njóta draums síns."

Gunnar lá mjög langa hríð. Hann varp af sér skildinum er hann vaknaði og var
honum orðið heitt mjög.