En Gunnar gengur til hests síns og mælti við Kolskegg: "Högg þú hestinn.
Ekki skal hann lifa við örkuml."

Kolskeggur hjó höfuð af hestinum. Þá komst á fætur Þorgeir og tók vopn sín
og vildi að Gunnari en það varð stöðvað og varð þröng mikil.

Skarphéðinn mælti: "Leiðist mér þóf þetta og er miklu drengilegra að menn
vegist með vopnum."

Gunnar var kyrr svo að honum hélt einn maður og mælti ekki orð það er áfátt
væri. Njáll mælti að þeir skyldu sættast og setja grið. Þorgeir kvaðst
hvorki vildu selja grið né taka, kvaðst heldur vilja Gunnar dauðan fyrir
höggið.

Kolskeggur mælti: "Fastara hefir Gunnar staðið en hann hafi fallið fyrir
orðum einum og mun enn svo."

Nú ríða menn af hestaþingi hver til síns heima. Veita þeir Gunnari engar
aðfarar. Liðu svo þau misseri.

Á þingi um sumarið fann Gunnar Ólaf pá mág sinn og bauð Ólafur honum heim en
bað hann þó vera varan um sig "því að þeir munu gera þér slíkt illt er þeir
mega og far þú fjölmennur jafnan."

Ólafur réð honum mörg heilræði og mæltu þeir til hinnar mestu vináttu með
sér.


60. kafli

Ásgrímur Elliða-Grímsson hafði mál að sækja á þinginu. Það var erfðamál.
Málinu átti að svara Úlfur Uggason. Ásgrími tókst svo til sem sjaldan var
vant að vörn var í máli hans. En sú var vörnin að hann hafði nefnt fimm búa
þar sem hann átti níu. Nú hafa þeir þetta til varna.

Þá mælti Gunnar: "Eg mun skora þér á hólm Úlfur Uggason ef menn skulu eigi
ná af þér réttu máli."

"Ekki á eg þetta við þig," segir Úlfur.

"Fyrir hitt mun þó ganga," segir Gunnar, "og mundi það Njáll ætla og Helgi
vinur minn að eg mundi hafa nokkura vörn í máli með þér Ásgrímur ef þeir
væru eigi við."

Lauk svo því máli að Úlfur hlaut að greiða féið allt.

Þá mælti Ásgrímur til Gunnars: "Heim vil eg þér bjóða í sumar og jafnan skal
eg með þér vera í málaferlum en aldrei í móti þér."

Ríður Gunnar heim af þingi.