Riðu þeir nú til Hlíðarenda. Gunnar var heima og gekk út. Kolskeggur og
Hjörtur gengu út með honum og fögnuðu þeim vel og spurðu hvert þeir ætluðu
að fara.
"Eigi lengra," segja þeir. "Oss er sagt að þú eigir hest góðan og viljum vér
bjóða þér hestaat."
"Litlar sögur mega ganga frá hesti mínum," segir Gunnar, "hann er ungur og
óreyndur að öllu."
"Kost munt þú láta að etja," segja þeir, "og gat þess til Hildigunnur að þú
mundir góður af hestinum."
"Hví töluðuð þér um það?" segir Gunnar.
"Þeir menn voru," segja þeir, "er það mæltu að þú mundir eigi þora að etja
við vorn hest."
"Þora mun eg að etja," segir Gunnar, "en grálega þykir mér þetta mælt."
"Skulum vér til þess ætla," segja þeir, "að þú munir etja?"
"Þá mun yður þykja för yður best," segir Gunnar, "ef þér ráðið þessu. En þó
vil eg þess biðja yður að vér etjum svo hestunum að vér gerum öðrum gaman en
oss engi vandræði og þér gerið mér enga skömm. En ef þér gerið til mín sem
til annarra þá er eigi ráðið nema eg sveigi þann að yður að yður mun hart
þykja undir að búa. Mun eg þar eftir gera sem þér gerið fyrir."
Ríða þeir nú heim. Starkaður spurði hversu þeim hefði farist. Þeir sögðu að
Gunnar gerði góða ferð þeirra.
"Hann hét að etja hesti sínum og kváðum vér á nær það hestavíg skyldi vera.
Fannst það á í öllu að honum þótti sig skorta við oss og baðst hann undan
vandræðum."
"Það mun oft á finnast," segir Hildigunnur, "að Gunnar er seinþreyttur til
vandræða en harðdrægur ef hann má eigi undan komast."
Gunnar reið að finna Njál og sagði honum hestaatið og hversu orð fóru með
þeim "eða hversu ætlar þú að fari hestaatið?"
"Þú munt hafa meira hlut," sagði Njáll, "en þó mun hér margs manns bani af
hljótast."
"Mun nokkuð hér af hljótast minn bani?" segir Gunnar.
"Ekki mun það af þessu hljótast," segir Njáll, "en þó munu þeir muna fornan
fjandskap, og nýjan munu þeir að þér færa og munt þú ekki annað mega en
hrökkva við."