Þóroddur goði mælti: "Svo líst oss sem það muni friðlegast að sæst sé á
málið eða hví leggur þú svo fátt til Gissur hvíti?"

"Svo líst mér," segir Gissur, "sem rammar skorður muni þurfa við að setja að
voru máli ef duga skal. Má það sjá að nær standa vinir Gunnars og mun sá
verða málahluti vor bestur að góðir menn geri um ef Gunnar vill það."

"Sáttgjarn hefi eg verið jafnan," segir Gunnar, "enda eigið þér nú eftir
mikið að mæla en eg þykist þó mjög neyddur til hafa verið."

Urðu þær nú málalyktir með ráði hinna vitrustu manna að málin voru öll lagið
í gerð. Skyldi gera um sex menn. Var þá þegar gert um málið á þingi. Var það
gert að Skammkell skyldi ógildur en manngjöld skyldu vera jöfn og
sporahöggið en bætt voru önnur vígin sem vert þótti og gáfu frændur Gunnars
fé til að þegar voru bætt upp öll vígin þar á þinginu. Gengu þeir þá til og
veittu Gunnari tryggðir Geir goði og Gissur hvíti.

Reið Gunnar heim af þingi og þakkaði mönnum liðveislu og gaf mörgum gjafar
og fékk af hina mestu sæmd. Situr Gunnar nú heima í sæmd sinni.


57. kafli

Starkaður hét maður. Hann var sonur Barkar blátannarskeggs Þorkelssonar
bundinfóta er land nam umhverfis Þríhyrning. Hann var kvongaður maður og hét
kona hans Hallbera. Hún var dóttir Hróalds hins rauða og Hildigunnar dóttur
Þorsteins tittlings. Móðir Hildigunnar var Unnur dóttir Eyvindar karfa,
systir Móðólfs hins spaka er Móðylfingar eru frá komnir. Synir þeirra
Starkaðar og Hallberu voru þeir Þorgeir og Börkur og Þorkell. Hildigunnur
læknir var systir þeirra. Þeir voru ofsamenn miklir í skapi, harðlyndir og
ódælir. Þeir sátu yfir hlut manna.