Þeir hljópu þá allir af baki og sóttu að Gunnari. Hallbjörn var fremstur.

"Sæk þú eigi að," segir Gunnar. "Þér vildi eg síst illt gera en eg mun þó
engum hlífa ef eg á hendur mínar að verja."

"Það mun ekki gera," segir Hallbjörn. Þú munt þó drepa vilja bróður minn og
er það skömm ef eg sit hjá" og lagði til Gunnars tveim höndum miklu spjóti.

Gunnar skaut fyrir skildinum en Hallbjörn lagði í gegn um skjöldinn. Gunnar
skaut svo fast niður skildinum að hann stóð fastur í jörðunni en tók til
sverðsins svo skjótt að eigi mátti auga á festa og hjó með sverðinu og kom á
höndina Hallbirni fyrir ofan úlflið svo að af tók.

Skammkell hljóp á bak Gunnari og höggur til hans með mikilli öxi. Gunnar
snerist skjótt að honum og lýstur við atgeirinum og kom undir kverk öxinni
og hraut hún úr hendi honum út á Rangá. Gunnar leggur í annað sinn
atgeirinum og í gegnum Skammkel og vegur hann upp og kastar honum í
leirgötuna að höfðinu. Auðólfur austmaður þreif upp spjót og skaut að
Gunnari. Gunnar tók á lofti spjótið og skaut aftur þegar og fló í gegnum
skjöldinn og austmanninn og niður í völlinn. Otkell höggur með sverði til
Gunnars og stefnir á fótinn fyrir neðan kné. Gunnar hljóp í loft upp og
missir Otkell hans. Gunnar leggur atgeirinum til hans og í gegnum hann. Þá
kemur Kolskeggur að og hleypur þegar að Hallkatli og höggur hann banahögg
með saxinu. Þar vega þeir þá átta.

Kona hljóp heim, er sá, og sagði Merði og bað hann skilja þá.

"Þeir einir munu vera," segir hann, "að eg hirði aldrei þó að drepist."

"Eigi munt þú það vilja mæla," segir hún, "þar mun vera Gunnar frændi þinn
og Otkell vinur þinn."

"Klifar þú nokkuð jafnan mannfýla þín," segir hann og lá hann inni meðan
þeir börðust.

Gunnar reið heim og Kolskeggur eftir verk þessi og ríða þeir hart upp eftir
eyrunum og stökk Gunnar af baki og kom standandi niður.

Kolskeggur mælti: "Hart ríður þú nú frændi."

Gunnar mælti: "Það lagði Skammkell mér til orðs er eg mælti svo: "Þér ríðið
á mig ofan.""

"Hefnt hefir þú nú þess," segir Kolskeggur.

"Hvað eg veit," segir Gunnar, "hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn
sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn."