Our assignment for Friday 6th April 2007 sent on Grace's behalf
Hope this is received well  (trouble sending again)
Patricia
 
-------Original Message-------
 
Date: 29/03/2007 14:34:25
Subject: April 5 Njal 54 beginning
 
54. kafli
 
Nú er þar til máls að taka að Gunnar var úti að Hlíðarenda og sér smalamann
sinn hleypa að garði. Smalamaðurinn reið heim í túnið.
 
Gunnar mælti: "Hví ríður þú svo hart?"
 
"Eg vildi vera þér trúlyndur," segir hann. "Eg sá menn ríða ofan með
Markarfljóti átta saman og voru fjórir í litklæðum."
 
Gunnar mælti: "Þar mun vera Otkell."
 
"Vildi eg því segja þér," segir smalamaðurinn, "að eg hefi oft heyrt mörg
skapraunarorð þeirra. Sagði svo Skammkell austur í Dal að þú hefðir grátið
þá er þeir riðu á þig ofan. Þykja mér ill vera orðtök vondra manna."
 
"Ekki skulum við vera orðsjúkir," segir Gunnar, "en það eitt skalt þú vinna
héðan í frá er þú vilt."
 
"Skal eg nokkuð segja Kolskeggi bróður þínum?" segir smalamaðurinn.
 
"Far þú og sof," segir Gunnar. "Eg mun segja Kolskeggi slíkt er mér líkar."
 
Sveinninn lagðist niður og sofnaði þegar.
 
Gunnar tók smalahestinn og lagði á söðul sinn. Hann tók skjöld sinn og gyrti
sig sverðinu Ölvisnaut, setur hjálm á höfuð sér, tekur atgeirinn og söng í
honum hátt og heyrði Rannveig móðir hans.
 
Hún gekk fram og mælti: "Reiðulegur ert þú nú son minn og ekki sá eg þig
slíkan fyrr."
 
Gunnar gengur út og stingur niður atgeirinum og verpur sér í söðulinn og
ríður braut. Rannveig gekk til stofu. Þar var háreysti mikið.
 
"Hátt kveðið þér," segir hún, "en þó lét hærra atgeirinn er Gunnar gekk út."
 
Kolskeggur heyrði og mælti: "Það mun eigi engra tíðinda vita."
 
"Það er vel," segir Hallgerður, "nú munu þeir reyna hvort hann gengur
grátandi undan þeim."
 
Kolskeggur tekur vopn sín og leitar sér að hesti og ríður eftir slíkt er
hann mátti.
 
Gunnar ríður um Akratungu þvera og svo til Geilastofna og þaðan til Rangár
og ofan til vaðs hjá Hofi. Konur voru þar á stöðli. Gunnar hljóp af hesti
sínum og batt. Þá riðu hinir að. Móhellur voru í götunum við vaðið.
 
Gunnar mælti til þeirra: "Nú er að verja sig. Er hér nú atgeirinn. Munuð þér
nú og reyna hvort eg græt nokkuð fyrir yður."