Runólfur hét maður sonur Úlfs aurgoða. Hann bjó í Dal fyrir austan
Markarfljót. Hann gisti Otkel er hann reið af þingi. Otkell gaf honum uxa
alsvartan, níu vetra gamlan. Runólfur þakkaði honum gjöfina og bauð honum
heim þá er hann vildi fara og stóð þetta heimboð nokkurt skeið svo að hann
fór eigi. Runólfur sendi honum oft menn og minnti á að hann skyldi fara og
hét hann jafnan ferðinni. Otkell átti hesta tvo bleikálótta. Þeir voru
bestir hestar að reið í héraðinu og svo elskir hvor að öðrum að hvor rann
eftir öðrum.
Austmaður var á vist með Otkatli er Auðúlfur hét. Hann lagði hug á Signýju
dóttur Otkels. Auðúlfur var mikill maður vexti og styrkur.
53. kafli
Það var um vorið að Otkell mælti að þeir mundu ríða austur í Dal að heimboði
og létu allir vel yfir því. Skammkell var í för með Otkatli og bræður hans
tveir, Auðúlfur og þrír menn aðrir. Otkell reið hinum bleikálótta hesti en
annar rann hjá laus. Stefna þeir austur til Markarfljóts. Hleypir hann nú
fyrir Otkel. Ærast nú báðir hestarnir og hlaupa af leiðinni upp til
Fljótshlíðar. Fer Otkell nú meira en hann vildi.
Gunnar hafði farið heiman einn samt af bæ sínum og hafði kornkippu í annarri
hendi en handöxi í annarri. Hann gengur á sáðland sitt og sáir þar niður
korninu og lagði guðvefjarskikkju sína niður hjá sér og öxina og sáir nú
korninu um hríð.
Nú er að segja frá Otkatli að hann ríður meira en hann vildi. Hann hefir
spora á fótum og hleypir neðan um sáðlandið og sér hvorgi þeirra Gunnars
annan. Og í því er Gunnar stendur upp ríður Otkell á hann ofan og rekur
sporann við eyra Gunnari og rístur hann mikla ristu og blæðir þegar mjög.
Þar riðu þá félagar Otkels.