51. kafli

Gunnar reið til þings og allir Sigfússynir, svo Njáll og synir hans. Þeir
gengu með Gunnari allir og var það mælt að engi flokkur mundi jafn
harðsnúinn þeim.

Gunnar gekk einn dag til búðar Dalamanna. Hrútur var við búð og Höskuldur og
fögnuðu þeir vel Gunnari. Gunnar segir þeim alla sögu um málaferli þessi.

"Hvað leggur Njáll til ráðs?" segir Hrútur.

Gunnar svaraði: "Hann bað mig finna ykkur bræður og segja svo að eitt ráð
mundi honum um það sýnast sem ykkur."

"Það vill hann þá," segir Hrútur, "að eg kveði upp fyrir vensla sakir og
skal svo vera. Þú skalt skora á hólm Gissuri hvíta ef þeir bjóða þér eigi
sjálfdæmi en Kolskeggur Geiri goða. En fást munu menn til að ganga að móti
Otkatli og bræðrum hans. Og höfum vér nú lið svo mikið allir saman að þú
mátt fram koma slíku sem þú vilt."

Gunnar gekk heim til búðar og sagði Njáli.

"Slíks var mér von," sagði Njáll.

Úlfur aurgoði varð vís þessar ráðagerðar og sagði Gissuri.

Gissur mælti til Otkels: "Hver lagði það til ráðs með þér að þú skyldir
stefna Gunnari?"

"Skammkell sagði mér að það væri ráðagerð ykkur Geirs goða," segir Otkell.

"En hvar er mannfýla sú," segir Gissur, "er þetta hefir logið?"

"Hann liggur sjúkur heima að búð," segir Otkell.

"Þar er hann standi aldrei upp," segir Gissur. "En nú skulum vér allir ganga
að finna Gunnar og bjóða honum sjálfdæmi og veit eg þó eigi hvort hann vill
þau nú taka."

Margir menn mæltu illt við Skammkel og lá hann sjúkur um allt þingið.

Þeir Gissur gengu til búðar Gunnars. Kennd var för þeirra og var sagt
Gunnari inn í búðina. Þeir gengu út allir og fylktu. Gissur hvíti gekk
fyrstur.

Hann mælti er þeir fundust: "Það er boð vort Gunnar að þú dæmir sjálfur
málið ykkart Otkels."

"Fjarri mun það þá þínu ráði," segir Gunnar, "er mér var stefnt."