Skammkell segir honum kveðju Gissurar og Geirs "en um málaferli þessi þarf
ekki að tala hljóðlega að það er vilji þeirra Geirs goða og Gissurar að
sættast ekki á mál þessi. Er það tillaga þeirra að þú farir til Hlíðarenda
og stefnir Hallgerði um stuld en Gunnari um afneyslu."
Otkell mælti: "Svo skal með öllu fara sem þeir hafa ráð til gefið."
"Þeim þótti og undir því mest," segir Skammkell, "að þú hefðir sem
mikillegast látið en eg gerði þig sem mestan mann af öllu."
Nú segir Otkell bræðrum sínum.
Hallbjörn mælti: "Þetta mun vera hin mesta lygi."
Nú líða stundir þar til er stefnudagar komu hinir síðustu til alþingis.
Otkell kvaddi bræður sína og Skammkel að ríða til Hlíðarenda stefnuför.
Hallbjörn kvaðst fara mundu en kvað þá þessar ferðar iðrast mundu "þá er
stundir líða."
Nú ríða þeir tólf saman til Hlíðarenda. En er þeir komu í túnið þá var
Gunnar úti og fann eigi fyrr en þeir komu allt að bænum. Hann gengur þá eigi
inn. Otkell lætur þegar dynja stefnuna.
En er þeir höfðu fram flutt stefnuna þá mælti Skammkell: "Er rétt stefnt
Gunnar bóndi?"
"Þér vitið slíkt," segir Gunnar, "en minna skal eg þig á ferð þessa
Skammkell eitthvert sinn og tillögur þínar."
"Það mun oss ekki saka," segir Skammkell, "ef atgeirinn er eigi á lofti."
Gunnar var hinn reiðasti og gekk inn og sagði Kolskeggi.
Kolskeggur mælti: "Illa var er vér vorum eigi úti. Þeir skyldu hafa farið
hingað hina mestu sneypu ef vér hefðum við verið."
Gunnar mælti: "Hvað bíður sinnar stundar en ekki mun þeim för sjá til sæmdar
verða."
Litlu síðar fór Gunnar að finna Njál og sagði honum.
Njáll mælti: "Lát þú lítt á þig fá því að þetta mun þér verða til hinnar
mestu sæmdar áður þessu þingi sé lokið. Skulum vér og fylgja þér allir með
ráðum og kappi."
Gunnar þakkaði honum og reið heim.
Otkell ríður til þings og bræður hans og Skammkell.