"Það mun eg þiggja," sagði Otkell, "og ver þú sem réttorðastur."

"Svo skal vera," segir Skammkell.

Tók Skammkell þá við hestinum og við klæðum Otkels en Otkell gengur heim.

Hallbjörn var úti og mælti til Otkels: "Illt er að eiga þræl að einkavin og
munum vér þessa jafnan iðrast er þú hefir aftur horfið og er það óviturlegt
bragð að senda hinn lygnasta mann þess erindis er svo mun mega að kveða að
líf manna liggi við."

"Hræddur mundir þú verða," segir Otkell, "ef Gunnar hefði á lofti atgeirinn
er þú ert nú svo."

"Eigi veit það," segir Hallbjörn, "hver þá er hræddastur en það munt þú eiga
til að segja að Gunnar mun ekki lengi munda atgeirinum ef hann færir hann á
loft og sé hann reiður."

Otkell mælti: "Hvikið þér allir nema Skammkell."

Voru þeir þá báðir reiðir.


50. kafli

Skammkell kom til Mosfells og hermdi boð öll fyrir Gissuri.

"Svo líst mér," segir Gissur, "sem þetta hafi allvel boðið verið eða fyrir
hví þá Otkell eigi boð þessi?"

"Það var mest í því," segir Skammkell, "að allir vildu leita þér vegs og
beið hann af því þinna atkvæða og mun öllum það best gegna."

Þar var Skammkell um nóttina.

Gissur sendi mann eftir Geiri goða og kom hann ofan snemma.

Segir þá Gissur honum allt hversu farið var, spurði þá hversu með skyldi
fara.

Geir mælti: "Svo sem þú munt áður ætlað hafa að gera það af þessu máli sem
best gegnir. Nú munum við láta Skammkel segja söguna í annað sinn og vita
hversu honum hermist."

Þeir gerðu svo.

Geir mælti: "Rétt munt þú sagt hafa sögu þessa en þó hefi eg þig séð
illmannlegastan mann og eigi deilir litur kosti ef þú gefst vel."

Fór Skammkell heim og ríður fyrst í Kirkjubæ og kallar út Otkel. Hann fagnar
vel Skammkatli.