Hann beiddist að sjá. Þær sýndu honum og voru það sneiðir margar. Tók hann
þær og varðveitti. Litlu síðar fór Mörður að finna Otkel. Bað hann að taka
skyldi ostkistu Þorgerðar og var svo gert. Lagði hann þar í niður sneiðirnar
og stóðst það á endum og ostkistan. Sáu þeir þá að þeim hafði heill hleifur
gefinn verið.
Þá mælti Mörður: "Nú megið þér sjá að Hallgerður mun stolið hafa ostinum."
Drógu þeir þá öll dæmi saman. Sagði Mörður þá að hann þóttist laus þessa
máls. Skildu þeir að því.
Kolskeggur kom að máli við Gunnar og mælti: "Illt er að segja. Alræmt er að
Hallgerður muni stolið hafa og valdið þeim hinum mikla skaða er varð í
Kirkjubæ."
Gunnar kvaðst ætla að svo mundi vera "eða hvað er nú til ráðs?"
Kolskeggur svaraði: "Þú munt þykja skyldastur að bæta fyrir konu þinni og
þykir mér ráð að þú farir að finna Otkel og bjóðir honum góð boð."
"Þetta er vel mælt," segir Gunnar, "og skal svo vera."
Litlu síðar sendi Gunnar eftir Þráni Sigfússyni og Lamba Sigurðarsyni og
komu þeir þegar. Gunnar sagði þeim hvert hann ætlaði. Þeir létu vel yfir
því.
Gunnar reið við hinn tólfta mann í Kirkjubæ og kallaði út Otkel.
Þar var Skammkell og mælti: "Eg skal út ganga með þér og mun nú betra að
hafa vitsmuni við. Mundi eg það vilja að standa þér þá næst er þú þyrftir
mest sem nú mun vera. Þykir mér það ráð að þú látir drjúglega."
Síðan gengu þeir út, Otkell og Skammkell, Hallkell og Hallbjörn. Þeir
heilsuðu Gunnari. Hann tók því vel. Otkell spyr hvert hann ætlaði að fara.
"Ekki lengra en hingað," segir Gunnar, "og er það erindi mitt að segja þér
um skaða þann hinn mikla og hinn illa er hér er orðinn að hann er af völdum
konu minnar og þræls þess er eg keypti að þér."