49. kafli

Nú er að segja frá Skammkatli að hann ríður að sauðum upp með Rangá og sér
hann að glóar nokkuð í götunni og hleypur af baki og tekur upp og var það
hnífur og belti og þykist hann kenna hvorttveggja og fer í Kirkjubæ. Otkell
er úti staddur og fagnar honum vel.

Skammkell mælti til Otkels: "Kennir þú nokkuð til gripa þessa?"

"Kenni eg víst," segir Otkell.

"Hver á?" segir Skammkell.

"Melkólfur þræll," segir Otkell.

"Kenna skulu þá fleiri," segir Skammkell, "en við tveir því að trúr skal eg
þér í ráðum."

Þeir sýndu mörgum mönnum og kenndu þeir allir.

Þá mælti Skammkell: "Hvað munt þú nú til ráða taka?"

Otkell svaraði: "Við skulum fara að finna Mörð Valgarðsson og sýna honum og
vita hvað hann leggi til ráðs með okkur."

Síðan fóru þeir til Hofs og sýndu Merði gripina og spurðu ef hann kenndi.

Hann kvaðst kenna "eða hvað er að því? Þykist þér til Hlíðarenda eiga eftir
nokkuru að sjá?"

"Vant þykir oss með slíku að fara," segir Skammkell, "er slíkir
ofureflismenn eiga í hlut."

"Svo er víst," segir Mörður, "en þó mun eg vita þá hluti úr híbýlum Gunnars
er hvorgi ykkar mun vita."

"Gefa viljum vér þér fé til," segja þeir, "að þú leitir eftir þessu máli."

Mörður svaraði: "Það fé mun mér fullkeypt en þó má vera að eg hætti á."

Síðan gáfu þeir honum þrjár merkur silfurs að hann skyldi vera með þeim í
ráðagerð og liðveislu. Hann gaf það ráð til að konur skyldu fara með
smávarning og gefa húsfreyjum og vita hverju þeim væri launað "því að allir
hafa það skaplyndi," segir Mörður, "að gefa það fyrst upp er stolið er ef
það hafa að varðveita. Mun hér og svo ef af mannavöldum er. Skulu þær þá
sýna mér af hverju gefið er hvargi. Vil eg þá vera laus máls þessa ef
uppvíst verður."

Þessu játuðu þeir. Fóru þeir heim síðan.

Mörður sendi konur í hérað og voru þær í brautu hálfan mánuð. Þær komu aftur
og höfðu byrðar stórar. Mörður spurði hvar þeim hefði mest gefið verið. Þær
sögðu að þeim hefði að Hlíðarenda mest gefið verið og Hallgerður yrði þeim
mestur drengur.