Nú liðu þrjú þing þau er menn ætluðu að hann mundi sækja málið. Þá kom eitt
vandamál að hendi Gunnari það er hann vissi eigi hversu upp skyldi taka.
Reið hann þá til fundar við Njál. Hann fagnar vel Gunnari.
Gunnar mælti til Njáls: "Heilræði er eg kominn að sækja að þér um eitt
vandamál."
"Maklegur ert þú þeirra," segir Njáll og réð honum ráðin.
Gunnar stóð þá upp og þakkaði honum.
Njáll mælti þá og tók til Gunnars: "Helsti lengi hefir Sigmundur frændi þinn
óbættur verið."
"Fyrir löngu var hann bættur," segir Gunnar, "en þó vil eg eigi drepa hendi
við sóma mínum."
Gunnar hafði aldrei illa mælt til Njálssona. Njáll vildi ekki annað en
Gunnar gerði um málið. Hann gerði tvö hundruð silfurs en lét Skjöld vera
ógildan. Þeir greiddu þegar allt féið. Gunnar sagði sætt þeirra upp á
Þingskálaþingi þá er þar var mest fjölmenni og tjáði hversu þeim hafði vel
farið feðgum og sagði um orð þau hin illu er Sigmundi dró til höfuðsbana og
skyldi engi þau herma síðan en vera ógildur hver sem hermdi. Þeir mæltu það
báðir, Gunnar og Njáll, að engir hlutir skyldu þeir til verða að eigi semdu
þeir sjálfir. Efndist það og vel síðan og voru þeir jafnan vinir.
46. kafli
Gissur hvíti hét maður. Hann var Teitsson Ketilbjarnarsonar hins gamla frá
Mosfelli. Móðir Gissurar hét Ólöf. Hún var dóttir Böðvars hersis
Víkinga-Kárasonar. Ísleifur byskup var sonur Gissurar. Móðir Teits hét Helga
og var dóttir Þórðar Skeggja Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Gissur hvíti bjó
að Mosfelli og var höfðingi mikill.
Sá maður er nefndur til sögunnar er Geir hét. Hann var kallaður Geir goði.
Móðir hans hét Þorkatla og var dóttir Ketilbjarnar hins gamla frá Mosfelli.
Geir bjó í Hlíð í Byskupstungu. Þeir Geir og Gissur fylgdust að hverju máli.
Í þenna tíma bjó Mörður Valgarðsson að Hofi á Rangárvöllum. Hann var slægur
og illgjarn. Þá var Valgarður utan, faðir hans, en móðir hans önduð. Hann
öfundaði mjög Gunnar frá Hlíðarenda. Hann var vel auðigur að fé og heldur
óvinsæll.