"Laust þú mér nú," segir Skarphéðinn, "en þó skalt þú í móðurætt falla áður
við skiljum."

"Það er illa þá," segir Sigmundur.

Skarphéðinn laust á hjálminn Sigmundar og hjó hann síðan banahögg. Grímur
hjó á fótinn Skildi og tók af í ristarliðnum en Helgi lagði sverði í gegnum
hann og hafði hann þá bana.

Skarphéðinn sá smalamann Hallgerðar. Þá hafði hann höggvið höfuð af
Sigmundi. Hann seldi smalamanni í hendur höfuðið og bað hann færa Hallgerði
og kvað hana kenna mundu hvort það höfuð hefði kveðið níð um þá.

Smalamaður kastaði niður þegar höfðinu er þeir skildu því að hann þorði eigi
meðan þeir voru við. Þeir bræður fóru nú þar til er þeir fundu menn niðri
við Markarfljót og sögðu þeim tíðindin. Lýsti Skarphéðinn vígi Sigmundar á
hendur sér en þeir Grímur og Helgi vígi Skjaldar sér á hendur. Fóru þeir þá
heim og sögðu Njáli tíðindin.

Njáll mælti: "Njótið heilir handa. Hér skulu eigi sjálfdæmi fyrir koma að
svo búnu."

Nú er þar til máls að taka er smalamaður kemur heim til Hlíðarenda. Hann
segir Hallgerði tíðindin.

"Fékk Skarphéðinn mér í hendur höfuð Sigmundar og bað mig færa þér en eg
þorði eigi að gera það," segir hann, "því að eg vissi eigi hversu þér mundi
það líka."

"Það var illa er þú gerðir það eigi," segir hún. "Eg skyldi færa Gunnari
höfuðið og mundi hann þá hefna frænda síns eða sitja fyrir hvers manns
ámæli."

Síðan gekk hún til Gunnars og mælti: "Eg segi þér víg Sigmundar frænda þíns.
Hefir Skarphéðinn vegið hann og vildi láta færa mér höfuðið."

"Slíks var Sigmundi von," segir Gunnar, "því að illa gefast ill ráð. En
jafnan gerir hvort ykkart Skarphéðins grálega til annars."

Gekk þá Gunnar í braut. Hann lét ekki búa til vígsmálið og engan hlut að
hafa. Hallgerður minnti oft á og sagði Sigmund vera óbættan. Gunnar gaf ekki
gaum að því.