Nú er að segja frá Njálssonum að þeir fóru upp til Fljótshlíðar og voru um
nóttina við hlíðina og fóru nær Hlíðarenda er morgna tók. Þenna morgun hinn
sama stóðu þeir upp snemma, Sigmundur og Skjöldur, og ætluðu til stóðhrossa.
Þeir höfðu beisl með sér og tóku hross í túni og riðu í braut. Þeir leita
stóðhestsins um hlíðina og fundu hann meðal lækja tveggja og leiddu hrossin
ofan að götum mjög. Skarphéðinn sá Sigmund því að hann var í litklæðum.
Þá mælti Skarphéðinn: "Þú skalt gera að ekki Höskuldur því að þú munt oft
sendur einn saman óvarlega. En eg ætla mér Sigmund. Þykir mér það
karlmannlegt. En þið Grímur og Helgi skuluð vega að Skildi."
Höskuldur settist niður en þeir gengu þar til er þeir komu að þeim.
Skarphéðinn mælti til Sigmundar: "Tak vopn þín og ver þig. Er það nú meiri
nauðsyn en kveða flím um oss bræður."
Sigmundur tók vopn sín en Skarphéðinn beið meðan. Skjöldur sneri í mót þeim
Grími og Helga og börðust þeir í ákafa. Sigmundur hafði hjálm á höfði sér og
skjöld á hlið og gyrður sverði og hafði spjót í hendi, snýr nú í mót
Skarphéðni og leggur þegar spjótinu til hans og kemur í skjöldinn.
Skarphéðinn laust í sundur spjótskaftið og færir upp öxina í annað sinn og
höggur til Sigmundar og kom í skjöldinn og klauf ofan öðrum megin mundriða.
Sigmundur brá sverðinu hinni hægri hendi og höggur til Skarphéðins og kom í
skjöldinn og festi sverðið í skildinum. Skarphéðinn snaraði svo fast
skjöldinn að Sigmundur lét laust sverðið. Skarphéðinn hjó þá enn til
Sigmundar með öxinni Rimmugýgi. Sigmundur var í pansara. Öxin kom á öxlina
og klauf ofan herðarblaðið. Hann hnykkir að sér öxinni og féll Sigmundur á
kné bæði og spratt upp þegar.