"Reiddist Gunnar þó fyrir yðra hönd," segir hún, "og þykir hann skapgóður.
Og ef þér rekið eigi þessa réttar þá munuð þér engrar skammar reka."

"Gaman þykir kerlingunni að, móður vorri, að erta oss," segir Skarphéðinn og
glotti við en þó spratt honum sveiti í enni og komu rauðir flekkar í kinnur
honum en því var ekki vant.

Grímur var hljóður og beit á vörinni. Helga brá ekki við. Höskuldur gekk
fram með Bergþóru. Hún kom innar í annað sinn og geisaði mjög.

Njáll mælti: "Kemst þó að seint fari húsfreyja. Og fer svo um mörg mál þó að
menn hafi skapraun af að jafnan orkar tvímælis þó að hefnt sé."

En um kveldið er Njáll var kominn í rekkju heyrði hann að öx kom við þilið
og söng í hátt en lokrekkja var önnur og héngu þar á skildir og sér hann að
þeir eru í brautu.

Hann mælti: "Hverjir hafa tekið ofan skjöldu vora?"

"Synir þínir gengu út með," segir Bergþóra.

Njáll kippti skóm á fætur sér og gekk út og öðrum megin hússins og sér að
þeir stefna upp á hvolinn.

Hann mælti: "Hvert skal fara Skarphéðinn?"

"Leita sauða þinna," segir hann.

Njáll mælti: "Ekki munduð þér þá vera vopnaðir ef þér ætluðuð það og mun
annað vera erindið."

"Laxa skulum vér veiða faðir ef vér rötum eigi sauðina," segir Skarphéðinn.

"Vel væri þá ef svo væri að þá veiði bæri eigi undan," segir Njáll.

Þeir fóru leið sína en Njáll gekk inn til hvílu sinnar.

Hann mælti til Bergþóru: "Úti voru synir þínir með vopnum allir og munt þú
nú hafa eggjað þá til nokkurs."

"Allvel skal eg þakka þeim ef þeir segja mér heim víg Sigmundar," segir
Bergþóra.