"Ekki munt þú bæta híbýli vor," segir Gunnar, "svo er mér frá þér sagt. En
ekki mun eg vísa í braut frændum Hallgerðar þeim er hún vill að með henni
séu."
Gunnar var til hans fár og ekki illa.
Leið nú svo fram til þings.
Gunnar reið til þings og Kolskeggur með honum. Og er þeir komu til þings
fundust þeir Gunnar og Njáll og synir hans. Áttust þeir margt við og vel.
Bergþóra mælti við Atla: "Far þú upp í Þórólfsfell og vinn þar viku."
Hann fór upp þangað og var þar á laun og brenndi kol í skógi.
Hallgerður mælti við Brynjólf: "Það er mér sagt að Atli sé eigi heima og mun
hann vinna verk í Þórólfsfelli."
"Hvað þykir þér líkast að hann vinni?" segir hann.
"Í skógi nokkuð," segir hún.
"Hvað skal eg honum?" segir hann.
"Drepa skalt þú hann," segir hún.
Hann varð um fár.
"Minnur mundi Þjóstólfi í augu vaxa," segir hún, "ef hann væri á lífi að
drepa Atla."
"Ekki skalt þú hér enn þurfa mjög á að frýja," segir hann.
Tók hann þá vopn sín og hest, stígur á bak og ríður í Þórólfsfell. Hann sá
kolreyk mikinn austur frá bænum. Ríður hann þangað til, stígur af baki
hestinum og bindur hann en hann gengur þar sem mestur er reykurinn. Sér hann
þá hvar kolgröfin er og er þar maður við. Hann sá að hann hafði sett spjót í
völlinn hjá sér. Bryjólfur gengur með reykinum allt að honum en hann var
óður að verki sínum og sá hann eigi Brynjólf. Brynjólfur hjó í höfuð honum
með öxi. Hann brást við svo fast að Brynjólfur lét lausa öxina. Þá þreif
Atli spjótið og skaut eftir honum. Brynjólfur kastaði sér niður við vellinum
en spjótið flaug yfir hann fram.
"Naust þú nú þess er eg var eigi við búinn," segir Atli, "en nú mun
Hallgerði vel þykja. Þú munt segja dauða minn. En það er til bóta að þú munt
slíkan á baugi eiga brátt enda tak þú nú öxi þína er hér hefir verið."