Skarphéðinn mælti við mann er stóð í búðardyrunum: "Seg þú Gunnari að faðir
minn vill finna hann."

Sá segir Gunnari. Gunnar gekk út þegar og fagnaði vel Njáli og sonum hans.
Síðan gengu þeir á tal.

"Illa hefir nú orðið," segir Njáll, "er húsfreyja mín skal hafa rofið grið
og látið drepa húskarl þinn."

"Ekki ámæli skal hún af þessu hafa," segir Gunnar.

"Dæm þú nú málið," segir Njáll.

"Svo mun eg gera," segir Gunnar. "Læt eg þá vera menn jafndýra, Svart og
Kol. Skalt þú greiða mér tólf aura silfurs."

Njáll tók fésjóðinn og seldi Gunnari. Hann kenndi féið að það var hið sama
sem hann hafði greitt Njáli. Fór Njáll nú til búðar sinnar og var jafnvel
með þeim síðan sem áður.

Þá er Njáll kom heim taldi hann á Bergþóru en hún kvaðst aldrei vægja skyldu
fyrir Hallgerði.

Hallgerður leitaði á Gunnar mjög er hann hafði sæst á vígið. Gunnar kveðst
aldrei bregðast skyldu Njáli né sonum hans. Hún geisaði mjög. Gunnar gaf
ekki gaum að því.

Svo gættu þeir til á þeim misserum að ekki varð að.


38. kafli

Um vorið ræddi Njáll við Atla: "Það vildi eg að þú réðist austur í fjörðu að
eigi skapi Hallgerður þér aldur."

"Ekki hræðist eg það," segir Atli, "og vil eg heima vera ef eg á kosti."

"Það er þó óráðlegra," segir Njáll.

"Betra þykir mér að látast í þínu húsi," segir Atli, "en skipta um
lánardrottna. En þess vil eg biðja þig ef eg er veginn að eigi komi
þrælsgjöld fyrir mig."

"Svo skal þig bæta sem frjálsan mann," segir Njáll, "en Bergþóra mun þér því
heita sem hún mun efna að fyrir þig munu komu mannhefndir."

Réðst Atli þar þá að hjóni.

Nú er að segja frá Hallgerði að hún sendi mann vestur til Bjarnarfjarðar
eftir Brynjólfi rósta frænda sínum. Hann var sonur Svans laungetinn. Hann
var hið mesta illmenni. Gunnar vissi ekki til þessa. Hallgerður kvað hann
sér vel fallinn til verkstjóra. Brynjólfur kom vestan og spurði Gunnar hvað
hann skyldi. Hann kveðst þar vera skyldu.