Gunnar sagði það maklegt vera. Gunnar greiddi af hendi féið vel og reið heim
síðan.

Njáll kom heim af þingi og synir hans.

Bergþóra sá féið og mælti: "Vel er þessu í hóf stillt en jafnmikið fé skal
koma fyrir Kol er stundir líða."

Gunnar kom heim af þingi og taldi á Hallgerði. Hún kallaði betri menn óbætta
liggja margstaðar. Gunnar kvað hana ráða mundu tiltekjum sínum "en eg skal
ráða hversu málin lúkast."

Hallgerður hældist jafnan um víg Svarts en Bergþóru líkaði það illa.

Njáll fór upp í Þórólfsfell og synir hans að skipa þar til bús. En þann sama
dag varð sá atburður er Bergþóra var úti að hún sér mann ríða að garði
svörtum hesti. Hún nam staðar og gekk eigi inn. Hún kenndi eigi manninn. Sjá
maður hafði spjót í hendi og gyrður saxi. Hún spurði þenna mann að nafni.

"Atli heiti eg," sagði hann.

Hún spurði hvaðan hann væri.

"Eg er austfirskur maður," segir hann.

"Hvert skalt þú fara?" segir hún.

"Eg er maður vistlaus," segir hann, "og ætlaði eg að finna Njál og
Skarphéðinn og vita ef þeir vildu taka við mér."

"Hvað er þér hentast að vinna?" segir hún.

"Eg er akurgerðarmaður og margt er mér vel hent að gera," segir hann, "en
eigi vil eg því leyna að eg er maður skapharður og hefir jafnan hlotið um
sárt að binda fyrir mér."

"Ekki gef eg þér það að sök," segir hún, "þótt þú sért engi bleyðimaður."

Atli mælti: "Ert þú nokkurs ráðandi hér?"

"Eg er kona Njáls," segir hún, "og ræð eg ekki síður hjón en hann."

"Vilt þú taka við mér?" segir hann.

"Gera mun eg kost á því," segir hún, "ef þú vilt vinna allt það er eg legg
fyrir þig og svo þó að eg vilji senda þig til mannráða."

"Átt þú svo til varið um menn," segir hann, "að þú munt ekki mín þurfa að
því að kosta."

"Það skil eg er eg vil," segir hún.

"Kaupa munum við að þessu," sagði hann.

Þá tók hún við honum.