Hann tók öxina og var reiður mjög og tekur hest er Gunnar átti og ríður þar
til er hann kemur austur að Markarfljóti. Hann steig þar af baki og beið í
skóginum þar til er þeir höfðu borið ofan viðinn og Svartur var einn eftir.
Hleypur Kolur þá að honum og mælti: "Fleiri munu kunna að höggva stórt en þú
einn" og setti öxina í höfuð honum og hjó hann banahögg og ríður heim síðan
og segir Hallgerði vígið.
"Njót heill handa," segir hún, "og skal eg þig svo varðveita að þig skal
ekki saka."
"Vera má það," segir hann, "en hinn veg dreymdi mig þó áður en eg vó vígið."
Nú koma þeir upp í skóginn og finna Svart veginn og flytja hann heim.
Hallgerður sendi mann til þings að segja Gunnari vígið. Gunnar hallmælti
Hallgerði ekki um fyrir sendimanninum og vissu menn eigi hvort honum þótti
vel eða illa. Litlu síðar stóð hann upp og bað menn sína ganga með sér. Þeir
gerðu svo og fóru til búðar Njáls. Gunnar sendi mann eftir Njáli og bað hann
út koma. Njáll gekk út þegar og gengu þeir Gunnar á tal.
Gunnar mælti: "Víg hefi eg að segja þér og hefir valdið Hallgerður kona mín
en vegið hefur Kolur verkstjóri minn en fyrir hefir orðið Svartur húskarl
þinn."
Njáll þagði meðan Gunnar sagði söguna.
Þá mælti Njáll: "Þurfa munt þú að láta hana eigi öllu fram koma."
Gunnar mælti: "Sjálfur skalt þú dæma."
Njáll mælti: "Erfitt mun þér verða að bæta öll slys Hallgerðar og mun annars
staðar meira slóða draga en hér er við eigum hlut að og mun hér þó mikið á
vanta að vel sé og munum við þess þurfa að muna það er við höfum lengi vel
við mælst. Og væntir mig að þér fari vel en þó munt þú verða mjög að
þreyttur."
Njáll tók sjálfdæmi af Gunnari og mælti: "Ekki mun eg halda máli þessu til
kapps. Þú skalt gjalda tólf aura silfurs. En það vil eg til skilja þó að
nokkuð komi það úr vorum garði er þér eigið um að gera að þér stillið eigi
verr gerðinni."