36. kafli

Gunnar ríður til þings. En áður en hann reið heiman mælti hann til
Hallgerðar: "Ver þú dæl meðan eg er heiman og sýn af þér enga fárskapi þar
sem við vini mína er um að eiga."

"Tröll hafi þína vini," segir hún.

Gunnar ríður til þings og sá að eigi var gott orðum við hana að koma. Njáll
reið til þings og synir hans allir.

Nú er frá því að segja hvað heima er tíðinda. Þeir áttu skóg saman, Njáll og
Gunnar, í Rauðaskriðum. Þeir höfðu eigi skipt skóginum en hvor var vanur að
höggva sem þurfti og taldi hvorgi á annan um það.

Kolur hét verkstjóri Hallgerðar. Hann hafði verið með henni lengi og var hið
mesta illmenni.

Svartur hét maður. Hann var húskarl Njáls og Bergþóru og líkaði þeim við
hann vel. Bergþóra mælti við hann að hann skyldi fara í Rauðaskriður og
höggva skóg "en eg mun fá til menn að draga heim viðinn."

Hann kveðst vinna mundu það er hún legði fyrir hann. Hann fór upp í
Rauðaskriður. Tekur hann þar og höggur skóg og skyldi þar að vera viku.

Snauðir menn komu til Hlíðarenda austan frá Markarfljóti og sögðu að Svartur
hafði verið í Rauðaskriðum og höggvið skóg og gert mikið að.

"Svo mun Bergþóra til ætla," segir Hallgerður, "að ræna mig mörgu en því
skal eg ráða að hann höggvi eigi oftar."

Rannveig heyrði, móðir Gunnars, og mælti: "Þó hafa húsfreyjur þótt góðar
austur hér að ekki hafi staðið í mannráðum."

Nú leið af nóttin og um morguninn kom Hallgerður að máli við Kol og mælti:
"Verk hefi eg þér hugað" og fékk honum öxi. "Far þú í Rauðaskriður. Þar munt
þú finna Svart."

"Hvað skal eg honum?" segir hann.

"Spyr þú að því," segir hún, "þar sem þú ert hið mesta illmenni? Drepa skalt
þú hann," segir hún.

"Gert mun eg það geta," segir hann, "en það er þó líkast að eg gefi mig
við."

"Vex þér hvetvetna í augu," segir hún, "og fer þér illa þar sem eg hefi mælt
eftir þér hvern hlut. Mun eg fá til annan mann að gera þetta ef þú þorir
eigi."