Þórhildur gengur um beina og báru þær Bergþóra mat á borð. Þráinn Sigfússon
var starsýnn á Þorgerði Glúmsdóttur. Þetta sér kona hans, Þórhildur. Hún
reiðist og kveður til hans kviðling:

"Era gapriplar góðir,

gægur er þér í augum,

Þráinn," segir hún.

Hann steig þegar fram yfir borðið og nefndi sér votta og sagði skilið við
Þórhildi "vil eg eigi hafa flimtan hennar né fáryrði yfir mér."

Og svo var hann kappsamur um þetta að hann vildi eigi vera að veislunni nema
hún væri í braut rekin. Og það varð að hún fór í braut. Og nú sátu menn hver
í sínu rúmi og drukku og voru kátir.

Þá tók Þráinn til orða: "Ekki mun eg gera að launtali það sem mér býr í
skapi. Þess vil eg spyrja þig Höskuldur Dala-Kollsson, vilt þú gifta mér
Þorgerði frændkonu þína?"

"Eigi veit eg það," segir Höskuldur, "mér þykir þú lítt hafa við þessa
skilið er hefir þú áður átt eða hver maður er hann, Gunnar?"

Hann svarar: "Eigi vil eg frá segja því að mér er maðurinn skyldur og seg þú
frá Njáll, því munu allir trúa."

Njáll mælti: "Það er frá manni að segja að maður er vel auðigur að fé og ger
að sér um allt og hið mesta mikilmenni og megið þér fyrir því gera honum
kostinn."

Þá mælti Höskuldur: "Hvað sýnist þér ráð Hrútur frændi?"

Hrútur svaraði: "Gera mátt þú fyrir því kostinn að þetta er henni jafnræði."

Þá tala þeir um kaupin og verða á allt sáttir. Stendur þá Gunnar upp og
Þráinn og ganga að pallinum. Spurði Gunnar þær mæðgur hvort þær vildu játa
þessum kaupum. Þær kváðust eigi bregða mundu. Fastnaði Hallgerður Þorgerði
dóttur sína. Þá var skipað konum í annað sinn. Sat þá Þórhalla meðal brúða.
Fer nú boðið vel fram. Og er lokið var ríða þeir Höskuldur vestur en
Rangæingar til sinna heimila. Gunnar gaf mörgum góðar gjafar og virðist það
vel.

Hallgerður tók við búráðum og var fengsöm og atkvæðamikil. Þorgerður tók við
búráðum að Grjótá og var góð húsfreyja.