Þar kom niður ræða Gunnars að hann spurði hversu þeir bræður mundu því svara
ef hann bæði Hallgerðar.
"Vel," segir Höskuldur, "ef þér er það alhugað."
Gunnar segir sér það alvöru "en svo skildum vér næstum að mörgum mundi það
þykja líklegt að hér mundi ekki samband verða."
"Hversu líst þér Hrútur frændi?" segir Höskuldur.
Hrútur svaraði: "Ekki þykir mér þetta jafnræði."
"Hvað finnur þú til þess?" segir Gunnar.
Hrútur mælti: "Því mun eg svara þér um þetta er satt er. Þú ert maður vaskur
og vel að þér en hún er blandin mjög og vil eg þig í engu svíkja."
"Vel mun þér fara," segir Gunnar, "en þó mun eg það fyrir satt hafa að þér
virðið í fornan fjandskap ef þér viljið eigi gera mér kostinn."
"Eigi er það," segir Hrútur, "meir er hitt að eg sé að þú mátt nú ekki við
gera. En þó að vér keyptum eigi þá vildum vér þó vera vinir þínir."
Gunnar mælti: "Eg hefi talað við hana og er þetta ekki fjarri hennar skapi."
Hrútur mælti: "Veit eg að svo mun vera að ykkur er báðum girndarráð. Hættið
þið og mestu til hversu fer."
Hrútur sagði Gunnari ófregið allt um skapferði Hallgerðar og þótti Gunnari
það fyrst ærið margt er áfátt var. En þar kom um síðir að saman féll
kaupmáli þeirra. Var þá sent eftir Hallgerði og var þá um talað svo að hún
var við. Létu þeir nú enn sem fyrr að hún festi sig sjálf. Skyldi þetta boð
vera að Hlíðarenda og skyldi fara fyrst leynilega en þó kom þar er allir
vissu.
Gunnar reið heim af þingi og reið þegar að finna Njál og sagði honum kaupin.
Hann tók þungt á kaupum hans. Gunnar spurði hvað hann fyndi til að honum
þótti slíkt svo óráðlegt.
Njáll svaraði: "Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur
hingað."
"Aldrei skal hún spilla okkru vinfengi," segir Gunnar.
"Það mun þó svo nær leggja," segir Njáll, "en þó munt þú jafnan bæta fyrir
henni."
Gunnar bauð Njáli til boðs og öllu því þaðan sem hann vildi að færi. Njáll
hét að fara. Síðan reið Gunnar heim og reið um héraðið að bjóða mönnum.