30. kafli

Gunnar hélt út úr elfinni og voru þeir Kolskeggur á einu skipi báðir en
Hallvarður var á öðru skipi. Þeir sjá nú skipin fyrir sér.

Þá mælti Gunnar: "Verum vér að nokkuru við búnir ef þeir leita á oss en
eigum ekki við þá ellegar."

Þeir gerðu svo og bjuggust við á skipum sínum. Hinir skildu í sundur skipin
og gerðu hlið í millum skipanna. Gunnar fór fram í milli skipanna. Vandill
þreif upp stafnljá og kastaði á meðal skipanna og í skipið Gunnars og dró
þegar að sér. Ölvir hafði gefið Gunnari sverð gott. Gunnar brá nú sverðinu
og hafði hann eigi sett á sig hjálminn, hleypur þegar á saxið á skip Vandils
og hjó þegar mann til bana. Karl lagði að öðrum megin sínu skipi og skaut
spjóti um þvert skip Gunnars og stefndi á hann miðjan. Gunnar sér þetta og
snerist svo skjótt að eigi mátti auga á festa og tók hinni vinstri hendi
spjótið og skaut á skip til Karls og hafði sá bana er fyrir varð. Kolskeggur
þreif upp akkeri og kastar á skip Karls og kom fleinninn í borðið og gekk út
í gegnum og féll þar inn sær kolblár og hljópu menn allir af skeiðinni og á
önnur skipin. Gunnar hljóp nú aftur á sitt skip.

Þá kom að Hallvarður og tókst nú bardagi mikill. Sáu þeir nú að formaður var
öruggur og gerði hver að slíkt er mátti. Gunnar gerði ýmist að hann hjó eða
skaut og hafði margur maður bana fyrir honum. Kolskeggur fylgdi honum vel.
Karl hljóp á skip til Vandils bróður síns og börðust þeir þaðan báðir um
daginn.

Kolskeggur tók hvíld um daginn á skipi Gunnars og sér Gunnar það og mælti
til hans: "Betri hefir þú öðrum verið í dag en þér því að þú hefir gert þá
óþyrsta."