Hallvarður spurði Gunnar ef hann vildi ráðast til Hákonar jarls.
"Eigi vil eg það," segir Gunnar. "Átt þú nokkuð langskip?" segir Gunnar.
"Á eg tvö," segir Hallvarður.
"Þá vildi eg að við færum í hernað," segir Gunnar, "og réðum menn til með
okkur."
"Það vil eg þá," segir Hallvarður.
Síðan fóru þeir til Víkurinnar og tóku þar skip tvö og bjuggust þaðan. Þeim
varð gott til manna því að mikil ágæti voru sögð frá Gunnari.
"Hvert vilt þú nú halda?" segir Gunnar.
"Fyrst suður í Hísing," segir Hallvarður, "á fund Ölvis frænda míns."
"Hvað vilt þú honum?" segir Gunnar.
"Hann er drengur góður," segir Hallvarður, "og mun hann fá okkur nokkurn
styrk til ferðarinnar."
"Förum við þangað þá," segir Gunnar.
Þegar er þeir voru búnir héldu þeir austur til Hísingar og höfðu þar góðar
viðtökur.
Skamma stund hafði Gunnar þar verið áður Ölvi fannst mikið um hann. Ölvir
spurði um ferð hans. Hallvarður segir að Gunnar vill í hernað og afla sér
fjár.
"Það er engi ætlan," segir Ölvir, "þar sem þið hafið lið ekki."
"Nú mátt þú og við auka," segir Hallvarður.
"Eg ætla gott að styrkja Gunnar að nokkuru," segir Ölvir, "og þó að þú eigir
frændsemi að telja við mig þá þykir mér þó meiri slægur til hans."
"Hvað vilt þú nú þá til leggja?" segir Hallvarður.
"Langskip tvö, annað tvítugsessu en annað þrítugsessu," segir Ölvir.
"Hverjir skulu þar á?" segir Hallvarður.
"Eg skal skipa húskörlum mínum annað en bóndum annað. En þó hefi eg spurt að
ófriður er kominn í elfina og veit eg eigi hvort þið komist í braut."
"Hverjir eru þar komnir?" segir Hallvarður.
"Bræður tveir," segir Ölvir, "heitir annar Vandill en annar Karl, synir
Snæúlfs hins gamla úr Gautlandi austan."
Hallvarður segir Gunnari að Ölvir hafði lagið til skipin. Gunnar varð glaður
við það. Þeir bjuggu ferð sína þaðan og er þeir voru búnir gengu þeir fyrir
Ölvi og þökkuðu honum en hann bað þá vel fara og varlega fyrir þeim bræðrum.