"Göngum þá," segir Höskuldur, "til búðar Gunnars og greiðum af höndum féið."

Þeir gengu til búðar Gunnars og kölluðu hann út. Hann gekk út í búðardyrnar
og menn með honum.

Höskuldur mælti: "Nú er að taka við fénu."

Gunnar mælti: "Greiðið nú þá. Eg er búinn við að taka."

Þeir greiddu féið allt vel af hendi.

Þá mælti Höskuldur: "Njót þú nú sem þú hefir aflað."

"Vel munum vér njóta því að sönn er fjárheimtan," segir Gunnar.

"Illa mun þér launað vera." segir Hrútur.

"Fer það sem má." segir Gunnar.

Þeir Höskuldur gengu heim til búðar sinnar og var honum mikið í skapi og
mælti til Hrúts: "Hvort mun Gunnari aldrei hefnast þessi ójafnaður?"

"Eigi mun það," segir Hrútur, "hefnast mun honum víst og mun oss verða í því
engi hefnd né frami. En þó er það líkast að hann snúist til vorrar ættar um
vinfengið."

Hættu þeir þá talinu.

Gunnar sýndi Njáli féið.

Njáll mælti: "Vel hefur nú vegnað," sagði hann.

"Og hefir af þér til leitt," segir Gunnar.

Menn riðu heim af þingi og hafði Gunnar hina mestu sæmd af málinu.

Gunnar færði féið allt Unni og vildi hann ekki af hafa en kveðst meira
heimta þykjast eiga að henni síðan eða að hennar frændum en að öðrum mönnum.
Hún kvað það svo vera.


25. kafli

Valgarður hét maður. Hann bjó að Hofi við Rangá. Hann var sonur Jörundar
goða, Hrafnssonar hins heimska, Valgarðssonar, Ævarssonar, Vémundarsonar
orðlokars, Þórólfssonar voganefs, Þrándarsonar hins gamla, Haraldssonar
hilditannar, Hrærekssonar slöngvanbauga. Móðir Haralds hilditannar var Auður
dóttir Ívars víðfaðma Hálfdanarsonar hins snjalla. Bróðir Valgarðs hins grá
var Úlfur aurgoði er Oddaverjar eru frá komnir. Úlfur aurgoði var faðir
Svarts, föður Löðmundar, föður Sigfúss, föður Sæmundar hins fróða, en frá
Valgarði er kominn Kolbeinn ungi.