Þú skalt ríða til Norðurárdals og svo til Hrútafjarðar og til Laxárdals og
til þess er þú kemur á Höskuldsstaði. Þar skalt þú vera um nótt og sitja
utarlega og drepa niður höfði. Höskuldur mun mæla að ekki skuli eiga við
Kaupa-Héðin og segja að hann sé óvinveittur. Síðan munt þú fara í braut um
morguninn eftir og koma á næsta bæ hjá Hrútsstöðum. Þar skalt þú láta falt
smíðið og hafa það uppi af er verst er og berja í brestina. Bóndi mun að
hyggja og mun hann finna brestina. Þú skalt hnykkja af honum og mæla illt
við hann.

Hann mun segja að það sé von að þú gefist honum eigi vel "er þú gefst öllum
öðrum illa."

Þá skalt þú fljúga á hann þó að þú sért því óvanur og still þó aflinu að þú
verðir eigi kenndur og ekki sé grunað. Þá mun sendur maður á Hrútsstaði að
segja Hrúti að betra mun að skilja ykkur. Hann mun þegar senda eftir þér en
þú skalt og þegar fara. Þér mun skipað á hinn óæðra bekk gegnt öndugi Hrúts.
Þú skalt kveðja hann. Hann mun vel taka þér og spyrja hvort þú sért
norðlenskur. Þú skalt segja að þú sért eyfirskur maður. Hann mun spyrja
hvort þar séu allmargir ágætismenn.

"Ærinn hafa þeir klækiskap," skalt þú segja.

"Er þér kunnigt til Reykjardals?" mun hann segja.

"Kunnigt er mér um allt Ísland," skalt þú segja.

"Eru í Reykjardal kappar miklir?" mun hann segja.

"Þjófar eru þar og illmenni," skalt þú segja.

Þá mun Hrútur hlæja og þykja gaman að. Munuð þið þá tala um menn í
Austfirðingafjórðungi og skalt þú öllum leggja nokkuð ámæli. Tal ykkart mun
koma á Rangárvöllu. Þá skalt þú segja að þar sé síst mannval síðan Mörður
gígja var dauður. Hann mun spyrja hvað þú færir til þess að eigi megi koma
maður í stað hans. Þú skalt því svara að hann var maður svo vitur og svo
mikill lagamaður og málafylgju að aldrei varð á um hans höfðingskap.