I'm posting this early as I'll be away from the computer most of the day
tomorrow.

Grace



19. kafli

Gunnar hét maður. Hann var frændi Unnar. Rannveig hét móður hans og var
Sigfúsdóttir Sighvatssonar hins rauða. Hann var veginn við Sandhólaferju.
Faðir Gunnars hét Hámundur og var sonur Gunnars Baugssonar. Við þann er
kennt Gunnarsholt. Móðir Hámundar hét Hrafnhildur. Hún var Stórólfsdóttir
Hængssonar. Stórólfur var bróðir Hrafns lögsögumanns. Sonur Stórólfs var
Ormur hinn sterki.

Gunnar Hámundarson bjó að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var mikill maður
vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann hjó báðum höndum og skaut
ef hann vildi og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá.
Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það er hann skaut til. Hann
hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram
fyrir sig. Hann var syndur sem selur. Og eigi var sá leikur að nokkur þyrfti
við hann að keppa og hefir svo verið sagt að engi væri hans jafningi. Hann
var vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert,
bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fór vel.
Manna var hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur
og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann var vel auðigur að fé.

Bróðir hans hét Kolskeggur. Hann var mikill maður og sterkur, drengur góður
og öruggur í öllu. Annar bróðir hans hét Hjörtur. Hann var þá í barnæsku.
Ormur skógarnef var bróðir Gunnars laungetinn og er hann ekki við þessa
sögu. Arngunnur hét systir Gunnars. Hana átti Hróar Tungugoði sonur Una hins
óborna Garðarssonar. Sá fann Ísland. Sonur Arngunnar var Hámundur halti er
bjó á Hámundarstöðum.