Þá var sent eftir Hallgerði og kom hún þangað og tvær konur með henni. Hún
hafði yfir sér vefjarmöttul blán og var undir í rauðum skarlatskyrtli og
silfurbelti um sig en hárið tók ofan á bringuna tveim megin og drap hún
undir belti sér. Hún settist niður í milli þeirra Hrúts og föður síns. Hún
kvaddi þá alla góðum orðum og mælti vel og skörulega og spurði tíðinda.
Síðan hætti hún að tala.

Glúmur mælti: "Um kaup við föður þinn höfum við Þórarinn bróðir minn talað
að eg mundi fá þín Hallgerður ef það er þinn vilji sem þeirra. Munt þú nú og
segja er þú ert kölluð skörungur mikill hvort það er nokkuð nær þínu skapi.
En ef þér er engi hugur á kaupum við oss þá viljum vér ekki um tala."

Hallgerður mælti: "Veit eg að þið eruð mikils háttar menn, bræður, og veit
eg að eg mun nú miklu betur gefin en fyrr. En vita vil eg hvað þér hafið um
talað eða hve mjög þér hafið fram mælt málinu. En svo líst mér á þig að eg
mun þér vel unnandi verða ef við komum skapi saman."

Glúmur sagði henni sjálfur allan skildaga og veik hvergi af og spurði þá
Höskuld og Hrút hvort hann hermdi rétt. Höskuldur sagði svo vera.

Hallgerður mælti þá: "Svo vel sem þér hefir farið til mín faðir um þetta mál
og þér Hrútur þá vil eg þetta að ykkru ráði gera og skal þessi kaupmáli vera
sem þið hafið stofnað."

Þá mælti Hrútur: "Það þykir mér ráð að við Höskuldur nefnum votta en
Hallgerður festi sig sjálf ef lögmanni þykir það rétt."

"Rétt er það," sagði Þórarinn.

Síðan voru virð fé Hallgerðar og skyldi Glúmur leggja í mót jafnmikið og
skyldi vera helmingarfélag með þeim. Glúmur fastnaði sér þá Hallgerði og
riðu þeir suður heim en Höskuldur skyldi hafa boð inni. Er nú kyrrt þar til
er menn ríða til boðs.