13. kafli

Bræður þrír eru nefndir til sögunnar. Hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriðji
Glúmur. Þeir voru synir Óleifs hjalta. Þeir voru virðingamenn miklir og vel
auðgir að fé. Þórarinn átti það kenningarnafn að hann var kallaður
Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eftir Hrafn Hængsson. Hann var stórvitur
maður. Hann bjó að Varmalæk og áttu þeir Glúmur bú saman. Glúmur hafði verið
lengi í förum. Hann var mikill maður vexti og sterkur og fríður sýnum. Ragi
var vígamaður mikill, bróðir þeirra. Þeir bræður áttu suður Engey og
Laugarnes.

Þeir bræður töluðu, Glúmur og Þórarinn, og spurði Þórarinn Glúm hvort hann
ætlaði utan sem hann var vanur.

Hann svaraði: "Hitt hafði eg nú heldur ætlað að hætta kaupferðum."

"Hvað er þér þá í skapi?" segir Þórarinn. "Vilt þú biðja þér konu?"

"Það vildi eg," sagði Glúmur, "ef eg gæti vel fyrir mér séð."

Þá taldi Þórarinn upp konur þær sem voru í Borgarfirði ógiftar og spurði ef
hann vildi nokkura eiga af þeim "og mun eg ríða til með þér."

Hann svaraði: "Enga vil eg þessa eiga."

"Nefn þú þá að því þá er þú vilt eiga," segir Þórarinn.

Glúmur svaraði: "Ef þú vilt það vita þá heitir hún Hallgerður og er dóttir
Höskulds í Dölum vestur."

"Eigi er nú það sem mælt er," segir Þórarinn, "að þú látir þér annars víti
að varnaði. Gift var hún manni og réð hún þeim bana."

Glúmur mælti: "Má að hana hendi eigi slík ógifta í annað sinn. Og veit eg
víst að hún ræður eigi mér bana. En ef þú vilt mér nokkura sæmd veita þá ríð
þú til með mér að biðja konunnar."

Þórarinn mælti: "Ekki mun mega við gera. Það mun verða fram að koma sem
ætlað er."

Oft kom Glúmur á um þetta mál við Þórarin en hann fór lengi undan. En þar
kom um síðir að þeir söfnuðu að sér mönnum og riðu tuttugu saman vestur til
Dala og komu á Höskuldsstaði og tók Höskuldur vel við þeim og voru þeir þar
um nóttina. En snemma um morguninn sendir Höskuldur eftir Hrúti og kom hann
þegar og var Höskuldur úti fyrir er hann reið í tún. Höskuldur segir Hrúti
hvað þar var komið manna.