I am posting this early as I'll be gone most of the day tomorrow.

Þjóstólfur gekk að og sá að hún var særð í andlitinu og mælti: "Hví ert þú
svo illa leikin?"

"Þorvaldur veldur því bóndi minn," sagði hún, "og stóðst þú mér þá fjarri ef
þér þætti nokkuð undir um mig."

"Eg vissi eigi," segir hann, "en þó skal eg þessa hefna."

Síðan gekk hann á braut og til fjöru og hratt fram skipi sexæru og hafði í
hendi öxi mikla er hann átti, vafinskeftu. Hann stígur á skip og rær út í
Bjarneyjar. Og er hann kom þar voru allir menn rónir nema Þorvaldur og
förunautar hans. Hann var að hlaða skútuna en þeir báru á út, menn hans.

Þjóstólfur kom að í því og hljóp upp á skútuna og hlóð með honum og mælti:
"Bæði ert þú að þessu lítilvirkur og óhagvirkur."

Þorvaldur mælti: "Hyggst þú munu betur gera?"

"Það eitt munum við að hafast að eg mun betur gera en þú," segir Þjóstólfur,
"og er sú kona illa gift er þú átt og skyldu ykkrar samfarar skammar vera."

Þorvaldur þreif upp handsax eitt er var hjá honum og leggur til Þjóstólfs.
Þjóstólfur hafði öxina á öxl sér og laust á mót og kom á hönd Þorvaldi og
brotnaði handleggurinn en saxið féll niður. Síðan færði Þjóstólfur upp öxina
í annað sinn og hjó í höfuð Þorvaldi og hafði hann þegar bana.


12. kafli

Þá fóru þeir ofan, menn Þorvalds, með byrðarnar. Þjóstólfur tók til ráða
skjótt. Höggur hann þá tveim höndum borð skútunnar og gekk sundur borðið um
tvö rúm, og hljóp í skip sitt. En á skútunni féll inn sær kolblár og sökk
hún niður með öllum farminum. Þar sökk og niður lík Þorvalds og máttu
förunautar hans eigi sjá hversu hann var til ger en hitt vissu þeir að hann
var dauður.

Þjóstólfur reri inn á fjörðinn en þeir báðu hann illa fara og aldrei
þrífast. Hann svaraði engu og reri inn á fjörðinn og þar til er hann kom
heim og brýndi upp skipinu og gekk heim og hafði uppi öxina og var hún
blóðug mjög.